Bananabrauð er í miklu uppáhaldi á mínu heimili og þá sérstaklega því það er auðvelt í bakstri. Og auðvitað er það virkilega bragðgott, hvort sem það er borðað eintómt eða ekki. Mér finnst bæði gott en kýs oftast að skella á það smjöri og osti. Hér kemur einföld uppskrift sem ég notast við.

2 bananar
2 tsk lyftiduft
2 tsk kanill
3 dl hveiti
2 dl sykur
50 gr smjörlíki (brætt)
2 egg
½ dl mjólk
2 tsk vanilludropar
Hitið ofninn í 180°. Bananar eru stappaðir vel. Smjörlíkið er brætt og látið kólna í smástund. Egg og sykur er hrært vel saman þar til það er orðið ljóst. Síðan eru þurrefnin, bananarnir og smjörið sett út í og öllu hrært vel saman. Svo er formið spreyjað (má setja bökunarpappír) og deiginu hellt ofan í. Næst er smá haframjöli stráð yfir og formið sett í ofninn í ca. 45 mínútur.

Verði ykkur að góðu ♡
