Sakamál

Robert Durst – The Jinx

Málið um Robert Durst er að mínu mati eitt það undarlegasta sem ég hef kynnt mér. Hann er sakaður um að hafa myrt þrjár manneskjur, nágranna sinn Morris Black árið 2001, vinkonu til margra ára Susan Berman árið 2000, og eiginkonu sína Kathleen McCormack Durst sem hvarf árið 1982. Hann hefur staðfastlega neitað að hafa myrt Kathleen og Susan, en játaði þó að hafa aflimað lík nágranna síns, Morris Black, en ber þó fyrir sig að hafa drepið hann í sjálfsvörn. Mál Robert Durst vakti mikla athygli enda er hann sonur viðskiptamannsins Seymour Durst og fjöskylda hans vel þekkt í viðskiptalífinu í New York.

Robert Durst

Kathleen McCormack Durst

Robert Durst, eða Bobby, kynntist konu sinni Kathleen McCormack, Kathie, haustið 1971. Þau fluttust til New York og giftu sig 12. apríl 1973, á þrítugsafmælisdag Bobby. Kvöldið sem Kathie hvarf hafði hún birst óvænt í kvöldverðarboð hjá vinkonu sinni, Gilberte Najamy, í Newtown, Connecticut. Samkvæmt Gilberte virtist Kathie vera í miklu uppnámi og illa til höfð. Hún var þekkt fyrir að líta alltaf vel út og klæða sig upp en þetta kvöld tók Gilberte eftir því að hún var í rauðum jogging buxum og þótti það mjög undarlegt. Síðar um kvöldið fékk Kathie símtal frá eiginmanni sínum, Bobby, og hélt heim á leið til South Salem, New York. Bobby heldur því fram að þau hafi rifist þetta kvöld og síðar um kvöldið hafi hann fylgt henni á Katonah lestarstöðina. Hann hafi svo farið og fengið sér drykk með nágranna sínum og seinna um kvöldið hafi hann talað við Kathie í símann frá íbúð sinni, Riverside Drive, Manhattan. Vert er að taka fram að Bobby og Kathie bjuggu í sitt hvoru lagi á þessum tíma.

Kathie og Bobby

Kathie hafði ætlaði sér að hitta vinkonu sína, Gilberte Najamy, aftur um kvöldið á bar í Manhattan en kom aldrei. Það vakti grunsemdir Najamy sem hafði ítrekað samband við lögreglu dagana á eftir. Það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar sem Bobby tilkynnti konu sína týnda. Þremur vikum eftir að Bobby hafði tilkynnt hana týnda, fann húsvörður Riverside Drive blokkarinnar, þar sem Bobby bjó, eigur Kathie í ruslagámi sem tilheyrði húsinu.
Eftir að systir Kathie komst að hvarfi hennar, fór hún ásamt vinum að heimili Kathie í South Salem, og fann einnig eigur hennar í ruslinu og pósturinn óopnaður. Bobby hélt því staðfastlega fram við lögreglu eftir hvarf hennar, að hann hefði síðast talað við hana í síma frá heimili sínu í Manhattan og síðast séð hana þegar hann fylgdi henni á Katonah lestarstöðina. Hann segist einnig hafa fengið símtal frá skólanum þann 4. febrúar, þar sem hún stundaði læknanám og honum sagt að Kathie hefði hringt 1. febrúar og tilkynnt veikindi það sem eftir var af vikunni. Það hafi því verið þá sem Bobby hafi ákveðið að tilkynna hvarf hennar til lögreglu. Ekkert hefur spurst eða sést til Kathie eftir að hún hvarf og fékk Bobby úrskurðaðan skilnað 8 árum eftir hvarfið og fjölskylda hennar fór fram á að hún yrði úrskurðuð látin ári eftir það. Ekki fór mikið fyrir málinu þó það hafi verið lítillega rannsakað árið 1999 og sú rannsókn gerð opinber árið 2000. Foreldrar Kathie létust en systir hennar hefur alltaf trúað því að Bobby eigi hlut í hvarfi hennar.

Susan Berman

Susan Berman, blaðakona og rithöfundur, var vinkona Bobby til margra ára en hún er einkar athyglisverður hluti af sögu Bobby. Hún var dóttir mafíósans David Berman og skrifaði síðar bók um líf sitt sem dóttir frægs glæpamanns.

Susan Berman

Susan Berman fannst látin þann 24. desember árið 2000 á heimili sínu í Los Angeles eftir að nágranni hennar hafði samband við lögreglu vegna opinnar hurðar á heimili hennar og hundarnir hennar lausir. Í ljós kom að hún hafði verið látin í að minnsta kosti sólarhring. Nokkrum dögum eftir að lík hennar fannst, barst lögreglunni í Beverly Hills handskrifaður miði dagsettur 23. desember með heimilisfangi Susan og einungis orðið
,,cadaver“ (lík) skrifað á miðann. Í fyrstu var talið að morðið á Susan væri tengt hennar lífi og skrifum um líf sitt sem dóttir alræmds mafíósa en annað átti eftir að leiða í ljós.

Miðinn sem barst lögreglu sem talið er að Bobby hafi skrifað og sent.

Susan hafði árið 1982 gefið vitnisburð fyrir lögreglu um vegna hvarfs Kathie þar sem hún var mjög nákomin Bobby og þekkti einnig Kathie eftir að hafa búið um tíma í New York. Bobby var yfirheyrður í tengslum við morðið á Susan eftir að í ljós kom að hann flogið til Kaliforníu dagana fyrir morðið og flogið til baka kvöldið áður en lík Susan fannst. Susan hafði fengið greitt frá Bobby um 50 þúsund bandaríkjadali í tveimur greiðslum aðeins nokkrum mánuðum fyrir morðið. Hún hafði síðast skrifað honum bréf 5. nóvember árið 2000 þar sem hún vonaðist til þess að fjárhagserfiðleikar hennar myndu ekki hafa áhrif á vinskap þeirra. Tímasetning morðsins er undarlegt að því leitinu til að fyrr á árinu hafði lögreglan ákveðið að endurrannsaka hvarf Kathie og hafði óskað eftir því að ná tali af Susan aftur í tengslum við vitnisburð hennar frá árinu 1982. Nokkrum dögum áður en sá fundur átti að taka sér stað, var Susan myrt. Morð Susan átti eftir að verða óleyst næstu árin.

Morris Black

13. september árið 2001 fannst sundurlimað lík í höfninni í Galveston, Texas. 13 ára drengur hafði verið við veiðar þegar hann sá búk fljóta í vatninu sem á vantaði höfuð, hendur og fætur. Síðar fundust hendur og fætur í ruslapokum í höfninni af köfurum ásamt hluta af dagblaði sem hafði límmiða með heimilisfangi. Eftir að hafa grennslast fyrir um heimilisfangið kom í ljós að líkið var af Morris Black, 71 árs manni frá Galveston. Þegar lögregla fór að rannsaka málið frekar og leituðu á heimili Morris töluðu þeir við nágranna hans, sem þá virtist vera mállaus eldri kona, eða í raun og veru Robert Durst sjálfur og notaði nafnið Dorothy Ciner.

Morris Black og líkamsleifar hans sem fundust.

Eftir að það komst upp um Bobby og hver hann var í raun veru, var hann handtekinn af lögreglu. Hann var látinn laus gegn tryggingu daginn eftir en flúði og mætti ekki fyrir dóm. Hann var á flótta um tíma en náðist loks af lögreglu í Bethlehem í Pennsilvaníu þegar hann reyndi að hnupla vörum í verslun þar. Eftir að Bobby var handtekinVið leit í bíl Bobby fannst ökuskírteini Morris og upplýsingar um leiðina að heimili Gilberte Najami, vinkonu Kathie, í Connecticut. Einnig fannst mikið reiðufé í bílnum ásamt tveimur byssum.

Af hverju lifði Bobby sem mállaus eldri kona í Texas?

Hann hafði lengi reynt að forðast sviðsljósið eftir að lögregla ákvað að enduropna mál Kathie árið 2000. Lögreglan hafði ætlað að tala við Susan Berman aftur vegna málsins og þar sem hún var trúnaðarvinur Bobby, var hann orðin áhyggjufullur. Hann ákvað því að fara í felur til að forðast lögregluna og mál Kathie. Hann fluttist til Galveston í Texas árið 2000 og dulbjó sig sem eldri konu.

Húsið sem Bobby og Morris bjuggu í. Þeir bjuggu í sitthvorri íbúðinni.

Þrátt fyrir að forðast sviðsljósið eins og hann gat á þessum tíma, fór hann oft í gervi konu á bókasafnið í Galveston til að fylgjast með gangi mála í New York og lesa fréttir um sjálfan sig. Á þessum árum fór hann að minnsta kosti tvisvar til New York og sat um bróður sinn, Douglas Durst, sem var virtur viðskiptamaður eins og faðir þeirra, vopnaður byssy sem varð til þess að Douglas fór að efast um Bobby.

Douglas og Robert Durst

Þeir bræður, Douglas og Bobby unnu báðir fyrir fjölskyldufyrirtækið sem faðir þeirra, Seymour, hafði byggt upp. Bobby hafði gengið að því vísu, verandi eldri, að hann tæki við fyrirtækinu á eftir föður sínum. En Seymour þótti Douglas vera efnilegri og hæfari til að sinna fyrirtækinu og mislíkaði undarleg hegðun Bobbt. Þetta fór ekki vel í Bobby sem síðar fjarlægðist fjölskylduna sína og stefndi fjöskyldusjóðnum til að fá sinn hluta úr sjóðnum. Samkomulag náðist og fékk hann greidda 65 milljónir bandaríkjadali. Douglas trúði á sakleysi bróður síns þegar kom að Kathie Durst alveg til ársins 2001 en þá fór hann að hafa efasemdir. Það gerði hann eftir að lík Morris Black fannst sundurlimað í Galveston.

Douglas Durst til hægri og Robert Durst til vinstri.

Í viðtali við The New York Times árið 2015 segir Douglas frá því að fyrir hvarf Kathie, hafi Bobby átt 7 hunda á 6 mánaða tímabili, af tegundinni Alaskan Malamutes sem allir hétu Igor. Þeir dóu allir á óútskýrðan hátt. Douglas telur að hann hafi verið að æfa sig fyrir hugsanlegt morð Kathie. Bobby hafði náðst á upptöku eftir að hann var handtekinn fyrir morðið á Morris segja, ,,I want to Igor Douglas“. Og tengir Douglas það við hundana 7 sem dóu á óútskýrðan hátt. Hann segir bróður sinn vera lygasjúkan og eigi erfitt með að trúa orði sem kemur út úr honum. Hann óttaðist líf sitt eftir að Bobby birtist tvisvar sinnum fyrir utan heimilið sitt vopnaður byssu. Í kjölfarið fékk hann nálgunarbann.

Réttarhöldin vegna morðsins á Morris Black

Réttarhöldin yfir Robert Durst fóru fram árið 2003 í Texas. Lögfræðingur hans, Dick DeGuerin og teymið hans áttu í miklum erfiðleikum með samskipti við Bobby og fengu því læknir til að meta andlegt ástand hans. Læknirinn eyddi miklum tíma með Bobby og varð niðurstaða hans sú að Bobby væri með Asperger og vildi meina að það útskýrði undarlega hegðun hans og erfið samskipti.

Robert Durst við réttarhöldin.


Þegar kom að morði Morris Black hélt Bobby því fram að hann hefði drepið hann í sjálfsvörn. Hann segir að þann 28. september árið 2001 hafi hann komið heim til sín og þar hefði Morris setið og horft á sjónvarpið. Morris hefði haft lykil að íbúð Bobby og hleypt sér inn sjálfur án leyfis. Hann hélt því fram að Morris hefði tekið byssu sem Bobby hefði falið á heimili sínu og beint að sér. Úr því hafi þeir slegist um byssuna sem hleypti af skoti í höfuð Morris sem lést. Bobby segir að þegar honum varð ljóst hvað hafði skeð hafi hann ætlað að fá nágranna sinn til að hringja á lögreglu en enginn hafi verið heima. Hræddur um að lögreglan myndi komast á snoðir um það hver hann væri í raun veru og honum yrði ekki trúað, hafi hann því ákveðið að búta líkið í sundur og losa sig við það.
Lögreglan komst að því eftir að hafa leitað á heimili Morris og í kringum húsið hver Bobby væri. Þeir fundu kvittanir í ruslagámi fyrir utan húsið með nafni hans og þá kom í ljós að Dorothy Ciner var í raun og veru Robert Durst. Í framhaldi af því leiddi rannsókn einnig í ljós að byssan sem notuð var þegar Morris var drepinn, var skráð á Robert Durst.
Höfuð Morris fannst aldrei og því var ekki hægt að sanna né afsanna þá kenningu að hann hefði fengið skot í höfuðuð. Tilgátur voru um það að Bobby hefði falið höfuðið svo erfiðara yrði að bera kennsl á Morris og ekki væri hægt að sanna að hann hefði skotið hann í höfuðið.

Niðurstaða kviðdóms

Vegna skorts á sönnunargögnum var Bobby sýknaður af morði. Hann var hins vegar sakfelldur og dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir að hafa flúið og ekki mætt fyrir dóm árið 2001 og fyrir að hafa bútað niður og losað sig við lík Morris. Hann sat inni í 3 ár og var síðan veitt reynslulausn.

Robert var sýknaður af morðinu.

The Jinx – The life and deaths of Robert Durst

Heimildarmyndin The Jinx.

Árið 2015 kom út heimildarmynd í sex hlutum, The Jinx – The life and deaths of Robert Durst, framleidd af Andrew Jarecki, sem fjallaði um málin þrjú. Bobby ákvað að veita fjölda viðtala fyrir myndina gegn ráði núverandi eiginkonu sinnar og lögfræðings. Framleiðendur myndarinnar fengu ótakmarkaðan aðgang að gögnum Bobby fyrir myndina. Eftir óvæntan endi í síðasta hluta heimildarmyndarinnar var Bobby handtekinn, sama dag og myndin var sýnd fyrir morðið á Susan Berman. Nýjar vísbendingar hafa komið fram í máli Susan og áttu réttarhöldin að hefjast í mars 2020 en voru þeim frestað fram í apríl 2021 vegna Covid-19. Á meðan situr Robert Durst, nú 77 ára, á bak við lás og slá í Los Angeles.

Og ef þið kannist við myndina All Good Things frá árinu 2009, þá fara þau Ryan Gosling og Kirsten Dunst með hlutverk Robert og Kathleen Durst. Sú mynd er einnig framleidd og leikstýrð af Andrew Jarecki. Robert Durst sjálfur var svo hrifinn af kvikmyndinni að hann hafði samband við Andrew Jarecki sem leiddi til þess að hann var viljugur til að veita viðtöl og úr því varð The Jinx – The life and deaths of Robert Durst.

Kvikmyndin All Good Things með Ryan Gosling og Kirsten Dunst í aðalhlutverki.

Ég mæli eindregið með þáttunum fyrir ,,true crime“ aðdáendur því þeir grípa mann um leið. Það verður athyglisvert að sjá hvernig málin þróast þegar réttarhöldin hefjast á næsta ári. Hvaða nýju vísbendingar hafa komið í ljós og hvernig mun Bobby reyna að koma sér undan sakfellingu í annað sinn?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s