Að heimsækja nýbakaða foreldra

Áður en ég átti Hannes Breka pældi ég lítið í því hvernig ætti að bera sig að í heimsóknum til nýbakaðra foreldra. Eftir að hafa sjálf verið í þessari stöðu fór ég meira að velta þessu fyrir mér og lærði ýmislegt sem ég mun koma til með að nýta mér þegar fólkið í kringum mig eignast börn. Ég tók saman lista yfir ýmsar ráðleggingar og ábendingar sem gott er að hafa í huga, bæði frá mér og öðrum mömmum. Það skal þó tekið fram að fólk er misjafnt, það sem aðrir kunna að meta kæra aðrir sig ekki um og þessvegna alltaf góð hugmynd að spyrja foreldrana áður en þið gerið eitthvað fyrir þau.

 • Spyrjið áður en þið komið í heimsókn.
  • Sumir vilja enga gesti til að byrja með, aðrir vilja vanda valið vel. Stundum liggur illa á og stundum þarf maður á félagsskapnum að halda. Spyrjið alltaf áður en þið komið hvort foreldrarnir vilji heimsóknir og hvort liggi vel á. Virðið svörin sem þið fáið. Þetta er viðkvæmur tími og ekkert persónulegt þótt foreldrarnir kæri sig ekki um heimsóknir.
 • Ekki stoppa of lengi.
  • Bæði börn og foreldrar þurfa tíma og hvíld. Ekki stoppa of lengi í heimsókn nema það sé sérstaklega beðið um það.
 • Takið með ykkur veitingar.
  • Nýbakaðir foreldrar hafa oftast ekki tímann í að vera að bjóða upp á mikið af kaffi og kræsingum. Það er sterkur leikur að koma með bakkelsi eða mat með sér til að fá sér með foreldrunum svo að þau þurfi ekki að sjá um kaffi handa gestunum. Mörgum finnst líka gott að fá tilbúinn mat til að eiga í frysti sem þarf bara að henda í ofn til að spara foreldrunum fyrirhöfnina að elda og sjá til þess að þau nærist vel.
 • Hjálpið með heimilisverk.
  • Þetta á við um þá sem eru nánastir foreldrunum og alls ekki ganga í nein heimilisverk án þess að spyrja fyrst. Þá getur verið gott að aðstoða með þvott, uppvask og smá tiltekt og þrif ef fólk kærir sig um það. Mér fannst sjúklega næs þegar fólk vaskaði upp eftir heimsóknir eða fór út með ruslið fyrir mig.
 • Hoppið í búð ef þarf.
  • Áður en mætt er í heimsókn er gott að spyrja hvort eitthvað vanti úr búð eða apóteki t.d. bleyjur, blautklúta eða mat.
 • Bjóðast til þess að passa stutt.
  • Ef þið treystið ykkur til þess að passa ungann í smá stund er hægt að bjóða foreldrunum að skjótast í smá bíltúr, göngutúr eða jafnvel bara í sturtu. Það er svo næs að fá pínulítið að skjótast og fá tíma fyrir sjálfan sig eftir að krílið kemur í heiminn.
 • Gjafir
  • Ef þið viljið gefa gjafir er sterkur leikur að miða við stærri stærðir (68+) handa barninu þar sem foreldrar eru oftar en ekki búnir að skaffa föt í minni stærðum. Það er líka gott að spyrja hvort það vanti eitthvað sérstakt, stundum vantar sérstaklega samfellur í ákveðinni stærð eða álíka og alltaf betra að fá það sem vantar frekar en að eiga alltof mikið. Börnin eru svo fljót að stækka og leiðinlegt ef ekki næst að nýta fötin. Dót fyrir barnið er líka sniðugt og svo er svo yndislegt þegar foreldrarnir fá eitthvað smá dekur. Ég fékk gjafabréf í nudd í jólagjöf rétt fyrir fæðingu sem ég nýtti eftir fæðingu og það var ein besta gjöf sem ég hef fengið. Í sængurgjöf fékk ég frá nokkrum maska, sápur, baðbombur og þessháttar sem var líka æðislegt þegar gafst tími til að gera aðeins vel við sig. Það er líka allt í lagi og oft mjög vel þegið að fá pening í vöggugjöf svo það sé þá hægt að kaupa það sem vantar fyrir peninginn.
 • Hlustið á foreldrana!
  • Þetta er nr. 1,2 og 3. Virðið það ef foreldrar segja nei, sama hvort það er við því að koma í heimsókn, hjálpa til eða halda á barninu. Foreldra hjartað og sérstaklega mömmu hjartað er svo viðkvæmt til að byrja með og það skiptir öllu máli að foreldrarnir fái algjörlega að stjórna ferðinni. Það er mikilvægast af öllu að spyrja og gefa foreldrum tækifæri á að segja nei. Mér sjálfri fannst rosalega gott þegar fólk bauðst til þess að gera eitthvað frekar en að spyrja opinna spurninga þar sem ég þurfti að stinga upp á því hvað þau gætu gert. Ég var yfirleitt voða tóm eða kunni ekki við að stinga upp á einhverju sérstöku því ég vildi ekki ómaka fólk of mikið. Ef það bauðst t.d. til þess að fara í búð eða vaska upp var miklu auðveldara að þiggja það heldur en að stinga upp á því.
 • Hugið að eldri börnunum.
  • Ef eldri börn eru á heimilinu er mikilvægt að þau gleymist ekki. Það er gott að gefa sér tíma í að spjalla við eldri börnin og jafnvel gefa þeim einhverja smá gjöf líka. Það hjálpar foreldrum líka mikið ef gestir hafa aðeins ofan af fyrir eldri börnunum og/eða bjóðast til að passa þau eða sækja á leikskóla eða annað.
 • Umræðuefni
  • Leyfið foreldrunum að ákveða hvað þau vilja ræða varðandi fæðingu og lífið með nýbura. Þegar ég leitaði eftir ábendingum fyrir þessa færslu voru nokkrar mæður sem bentu á þetta og nefndu t.d. brjóstagjafarmál (færsluna mína um það vandamál má lesa hér). Þessi umræðuefni eru oft viðkvæm og þessvegna er best að leyfa foreldrunum að ræða það sem þau vilja ræða og ekki ýta of mikið eftir svörum sem gætu vakið upp erfiðar tilfinningar. Ég eelskaði (og elska ennþá) að tala um fæðinguna mína. Gæti gert það endalaust. Ég var ekki jafn tilbúin að ræða ástandið eftir fæðingu því það var erfitt og ég var ekki tilbúin í þá umræðu fyrstu dagana.

Þessi listi er alls ekki tæmandi en er svona algengustu svörin frá þeim mæðrum sem ég fékk ábendingar frá. Það þarf að sjalfsögðu ekki að gera allt, það væri algjör geðveiki. Nema kannski ef þú ert súper náin/n foreldrunum. Þetta eru bara nokkrir punktar sem er got að hafa bakvið eyrað og reyna kannski að tikka 1-2 hluti af þessum lista næst þegar þú heimsækir nýbakaða foreldra. Ég vona að þessi listi geti hjálpað einhverjum, það væri gaman að heyra frá ykkur hvað þið kunnuð mest að meta eftir að þið eignuðust barn.

Þangað til næst!

Karen Ásta

Fylgist með mér á instagram @karenasta

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s