Að verða foreldri

Þegar Hannes Breki var um 2 vikna féllust mér skyndilega hendur. Ég hafði verið mikið verkjuð eftir fæðinguna enda rifnaði ég töluvert. Það var vont að sitja, standa og liggja, vont að fara á klósettið, vont að hósta eða hnerra, vont að hlæja, allt var vont. Fjölskyldan hjálpaði mér mikið, mamma mín og stjúppabbi voru oft með hann til þess að leyfa mér að hvílast og bræður mínir voru líka duglegir að leysa mig af. Ég átti erfitt með að halda á honum og varð fljótt þreytt. Ég varð líka þreytt andlega og stundum langaði mig bara að fá pásu frá honum þegar við vorum ein heima og þegar mamma bauðst til þess að vera með hann frammi yfir nótt varð ég fegin. Ég skammaðist mín hryllilega fyrir þessar tilfinningar og hugsanir. Hverskonar móðir nennir ekki að sinna barninu sínu? Það kom í ljós að svarið við því er venjuleg þreytt móðir en þarna upplifði ég mig aleina með þessar hugsanir. Ég taldi mér trú um að ég elskaði hann ekki nóg og ég grét mig í svefn yfir því.

Daginn eftir ræddi ég þessar tilfinningar við bæði mömmu mína og barnsföður minn. Besta ákvörðun sem ég tók var að vera opin með þetta og ræða þetta um leið og þessar tilfinningar komu upp. Ég leitaði til þeirra í þeirri trú að eitthvað væri að mér en viðbrögðin sem ég fékk komu mér skemmtilega á óvart. Þau veittu mér algjörlega þann stuðning sem ég þurfti á að halda á þessum tímapunkti og það er margt sem barnsfaðir minn sagði við mig sem hefur verið mér hugleikið síðan en hann t.d. benti mér á það að sama hvernig skapi ég er í eða nenni ekki að sinna honum þá geri ég það samt af einskærri ást. Ég færi fórnir fyrir hann á hverjum degi án þess að hugsa mig tvisvar um og hef sett hann í fyrsta sæti allt frá því að ég vissi að ég ætti von á honum. Það sem stóð þó uppúr af því sem kom út úr þessu samtali var setning sem Halldór sagði og ég hef minnt mig oft á og sagt við vinkonur mínar en hann sagði „þú hættir ekki að vera þú þótt þú verðir foreldri“. Þetta á við um allar þær hugsanir, langanir og tilfinningar sem þú upplifir.

Í mínu tilfelli kom í ljós að þessar tilfinningar voru að mestu leyti byggðar á vanmætti mínum til þess að sjá um barnið mitt. Ég vissi ekki að bataferlið gæti tekið svona á þrátt fyrir góða fæðingu og upplifði þennan vanmátt sem eitthvað andlegt frekar en líkamlegt. Kannski þurfti ég líka bara smá tíma í að kynnast þessum nýja einstakling en um leið og ég fór að geta séð um hann almennilega þá hurfu þessar tilfinningar að mestu leyti en ég held að allir foreldrar finni af og til fyrir einhverjum efasemdum og hræðslu, það er gott innan skynsamlegra marka því við elskum börnin okkar og viljum þeim það besta. Það eru að sjálfsögðu til dæmi þar sem málið er ekki svona einfalt, andleg veikindi eru algeng eftir barnsburð og þesssvegna hvet ég alla sem finna fyrir erfiðum hugsunum og tilfinningum að ræða það við þá sem þú treystir. Það er mögulega bara tímabundið og ósköp venjuleg orsök fyrir því eins og mínu tilfelli en það gæti líka verið djúpstæðara vandamál sem þarf að vinna í með aðstoð fagaðila. Sama hvort það er þá er alltaf gott að hafa fólk til að styðja mann í gegnum allar þær tilfinningar sem foreldrahlutverið bíður upp á.

Allt það sem við göngum í gegnum þegar við komum ný inn í foreldrahlutverkið hefur verið mér mjög hugleikið bæði af eigin reynslu en einnig út frá samtölum mínum við vinkonur mínar og það er oft sem þessi setning frá Halldóri á við. Um daginn fékk ég skilaboð frá vinkonu minni þar sem hún var að afsaka sig fyrir að fá sér bjór í annað skipti á stuttum tíma, hún lét þær upplýsingar fylgja að þetta væri bara lítill bjór og barnið væri sofandi og yrði það eitthvað áfram. Ókei, setjum aðeins á pásu. Barnið þitt er sofandi inni í herbergi, þú ert að slaka á eftir erfiðan dag með ungabarn og vilt fá þér einn bjór á sófanum. Helltu þér í glas, hoppaðu uppí sófa og hafðu það notalegt. Það er ekki hægt að hætta að lifa þótt að börnin komi í heiminn. Þegar þú verður foreldri, og ég held þetta eigi sérstaklega við um mömmur, þá áttu til að gleyma að það sé hægt að fara milliveginn. Hvernig eigum við sem foreldrar að halda geðheilsu ef blátt bann er við öllu sem við höfðum gaman af áður? Það er yndislegt að sjá um lítið barn en það er líka þreytandi og þú verður fljótt uppgefin/n ef þú ætlar ekki að gera neitt nema sjá um barnið þitt allan sólarhringinn alltaf. Það er enginn fullkominn og það er tilgangslaust að reyna það. Það er allt í lagi að fá sér bjór á kvöldinn, að njóta þess að komast út af heimilinu, að hika örlítið áður en þú stendur upp og sinnir barninu þínu þegar það vaknar klukkan 4 að nóttu. Það er allt í lagi að vera þreytt, pirruð, leið, hrædd, óörugg, hamingjusöm, spennt, ástfangin, æðrulaus, allt þar á milli og allt í bland.

Næst þegar þú finnur fyrir einhverju samviskubiti fyrir að vera þú þá mæli ég með að þú minnir þig á þessu setningu „þú hættir ekki að vera þú þótt þú verðir foreldri“. Ég held að allar mæður tengi við mömmu samviskubitið sem fylgir afar venjulegum hlutum sem enginn fengi samviskubit yfir venjulega og þá hefur þessi setning hjálpað mér mikið.

Það getur verið hættulegt að sjá glansmyndina allsstaðar og hún kemur sérstaklega fram á samfélagsmiðlum en einn minn allra uppáhalds instagram reikningur er @kviknar þar sem allar hliðar á móðurhlutverkinu eru sýndar, bæði góðar og slæmar. Það hefur hjálpað mér mikið að sjá að ég er ekki ein með mínar tilfinningar og upplifanir og þar sérðu hliðar sem flestir sýna ekki. Ef einhver er í svipaðri stöðu þá mæli ég eindregið með að tjékka á því.

Þangað til næst!

Karen Ásta

Fylgist með mér á instagram @karenasta

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s