Sjö vikna í sóttkví

Það þarf nú varla að segja neinum frá ástandinu sem nú er í heiminum vegna Kórónuveiru faraldursins en ég ákvað að skrifa örlítið um þetta út frá mínu sjónarhorni. Bæði til þess að deila með ykkur stöðunni hér hjá okkur en líka til þess að eiga seinna því við getum verið ansi fljót að gleyma.

Ég fór fyrst að heyra af veirunni stuttu eftir að Hannes Breki fæðist, fréttir bárust af slæmu ástandi í Kína þar sem keppst var við að byggja sjúkrahús til þess að bregðast við því hræðilega ástandi sem þar var komið upp. Brátt fór veiran að berast til annarra landa og Ítalía varð fljótlega hættusvæði. Þaðan kom veiran svo til Íslands í lok febrúar.

Við ætluðum að skíra þann 22. mars en um leið og smit kom upp hér á landi fór ég að íhuga breytingar þar á. Ég fékk aðeins að heyra það að ég væri bara paranoid og þetta væri algjör óþarfi svo ég ákvað að sitja á mér en 3. mars, eftir töluvert röfl í mér, ákváðum við að fresta skírninni um óákveðinn tíma. Það kom svo seinna í ljós að þetta hefði verið hárrétt ákvörðun því þann 22. mars var ég komin í úrvinnslusóttkví og mátti ekki yfirgefa sveitarfélagið og fangelsismálastofnun búin að aflýsa öllum leyfum svo Halldór hefði ekki fengið leyfi til að mæta í skírn.

13. mars hringir mamma svo í mig og segir mér frá því að smit hafi greinst hjá frænku minni. Þá fyrst varð þetta raunverulegt og komið ansi nálægt okkur. Mamma og stjúppabbi minn höfðu verið með henni viku áður en smit var staðfest og þurftu að bíða eftir fyrirmælum frá lækni hvort þau ættu að fara í sóttkví eða ekki. Það reyndist vera nógu langur tími svo ég fékk áfram að hitta þau. Samkomubann var svo sett á 15. mars þar sem ekki máttu fleiri en 100 manns koma saman í einu.

17. mars var ég heima hjá mömmu og gisti þar vegna veðurs. Um kvöldið kom tilkynning frá grunnskólanum að starfsmaður skólans hafi greinst með Covid-19. Í kjölfarið þurftu allir nemendur og starfsfólk skólans að fara í sóttkví en sá hópur telur 220 manns. Daginn eftir fór ég heim og ákvað þá að fara í sjálfskipaða sóttkví um óákveðinn tíma til þess að verja okkur mægðin. Fjótlega urðu smitin á Hvammstanga 2, síðan 5 og 21. mars sá ég í kvöldfréttum stöðvar 2 að úrvinnslusóttkví yrði sett á sveitarfélagið og tæki gildi klukkan 10 það kvöld. Tilfinningarnar sem komu upp voru skrýtnar, þarna var eitthvað orð sem ég hafði aldrei heyrt áður, aðstæður sem ég skildi ekki en þetta hljómaði ekki vel. Það var innan við mánuður síðan ég flutti út frá foreldrum mínum, einstæð í 40 fermetrum með 7 vikna barn og skyndilega mátti ég ekki hitta neinn, ekki einu sinni fjölskylduna mína. Einhver hræðsla náði tökum á mér og ég bara grét. Þótt svo að ég hefði verið búin að ákveða að einangra okkur þá virðist oft þungbærara að hlýða skipunum frá öðrum heldur en sínum eigin ákvörðunum. Þetta breytti þó litlu fyrir mig nema það að þarna varðaði það við lög ef ég skildi ákveða að hitta mömmu mína. Reglurnar hjá okkur breyttust þarna þannig að allir í Húnaþingi vestra voru í sóttkví með þeirri undantekningu að einungis einn aðili af hverju heimili gæti í hvert sinn yfirgefið heimilið til að afla aðfanga og einnig var samkomubann fært niður í 5 manns. Nauðsynleg þjónusta fékk undantekningu frá úrvinnslusóttkví svo sjúkrahús, matvörubúð og annað gæti áfram haldið uppi sinni nauðsynlegu starfsemi.

Stjúppabbi minn sá um að fara í búð fyrir mig og skildi eftir fyrir utan hjá mér, einnig fékk ég Ikea sendingu á þessum tíma og strákurinn sem kom með hana hringdi á undan sér til þess að segja mér að koma ekki út fyrr en hann væri farinn. Ég fór út að labba með vagninn þegar veður leyfði en passaði að koma ekki nálægt neinum sem var þó ekki erfitt því bærinn iðaði ekki beinlínis af lífi. Úrvinnslusóttkví varði í 6 daga, það voru ansi mörg smit sem komu upp á þessum tíma en smitrakning gekk vel og allir þeir sem að þessu komu eiga hrós skilið. Núna fylgjum við sömu reglum og hafa verið settar á landsvísu sem er að sjálfsögðu ekkert venjulegt líf en ég fagna því að fá að hitta fjölskylduna mína.

Þá kem ég að því sem mér finnst standa uppúr í þessu ástandi og það er samstaðan. Það eru svo ótal margir að leggja sitt af mörkum, fólk gefur vinnuna sína, sama hvort þau séu þjálfarar, jóga kennarar, zumba kennarar, dans kennarar eða annað. Fólk setur bangsa út í glugga fyrir börn að skoða og telja, tónlistarfólk er ýmist með tónleika í sjónvarpi eða á netinu eða hleður inn tónlist sem það vinnur heima hjá sér, ýmsar sjónvarpsstöðvar opna fyrir áður lokaðar stöðvar, leikhússýningar eru sýndar í sjónvarpi, rafrænt bingó var á facebook í gær og svo mætti lengi telja. Mér hlýnar um hjartarætur að sjá alla góðmennskuna sem er að koma útúr þessu annars erfiða ástandi og ég er þakklát fyrir litla samheldna landið mitt. Húnaþing vestra er langt frá því að gefa eitthvað eftir á þessu sviði. Þeir sem hafa veikst hafa talað um að hafa fengið góð viðbrögð frá íbúum og þeir íbúar sem ég hef heyrt frá tala ávalt um að við stöndum öll í þessu saman, hér er enginn einn á báti og við áfellumst ekki þá sem óvart smita út frá sér. Tónlistarfólkið okkar hefur gefið frá sér ábreiður meðal annars þetta hér. Myndmenntakennari grunnskólans hefur teiknað myndir til að lita en þær má finna hér. Svo hefur fólkið að sjálfsögðu verið duglegt við að setja bangsa út í glugga en nokkrir íbúar gáfu mér leyfi til þess að mynda bangsa í gluggum hjá þeim sem ég læt fylgja með þessari færslu.

Ég segi þetta gott í bili, munum að vera góð við hvert annað, við getum sýnt kærleik þrátt fyrir 2 metra bil. Við þurfum svo sannarlega á því að halda á þessum skrýtnu og erfiðu tímum. Ég sendi baráttukveðjur á alla þá sem á því þurfa að halda, saman komumst við í gegnum þetta ❤

Þangað til næst!

Karen Ásta

Fylgist með mér á instagram @karenasta

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s