Fæðingarsaga – Seinni hluti

Jæja seinni hlutinn, fæðingin sjálf! Ég átti yndislega fæðingu sem var ekki á nokkurn hátt lík þeim fæðingum sem ég hafði heyrt fyrir fæðinguna enda fá slæmu, dramatísku sögurnar alltaf mest vægi en það er gott að fá góðu sögurnar líka. Ég átti mjög hraða fæðingu miðað við fyrsta barn og ég er mjög fegin því. Það hefur þó sína galla að eiga svona fljóta fæðingu þar sem allt ferlið er mjög “intense” og frá fyrsta verk gafst ekki mikill tími til að slaka á milli hríða. Ég myndi samt ekki breyta neinu og þessi fæðing gekk betur en mig hefði nokkurn tímann órað fyrir.

Á föstudeginum var ég alveg búin að sætta mig við að drengurinn kæmi ekki fyrr en við gangsetningu sem var bókuð á mánudeginum og ég vildi ekki láta reyna neitt meira til að koma mér af stað. Við mamma ákváðum að fara aftur til Reykjavíkur og vera þar yfir helgina þar sem ég ætlaði að dreifa huganum með brjálaðri dagskrá sem samanstóð af bogfimisetrinu, listasafni Reykjavíkur, Kolaportinu, kaffihúsum og miðbæjarrölti svo eitthvað sé nefnt. Við vorum ekki búnar að gefa upp alla von á því að koma mér af stað með hinum ýmsu húsráðum svo þegar við komum okkur fyrir í íbúðinni um kvöldið ákvað ég að prufa að fá mér eitt rauðvínsglas. Ég hafði fengið grænt ljós á eitt glas frá ljósmóður og ráðlegg að sjálfsögðu engum að neyta áfengis á meðgöngu eða reyna að koma sér af stað án þess að vera í samráði við ljósmóður eða lækni. Ég fór svo í bað með lavender ilmolíudropum sem var annað húsráð sem ég hafði heyrt en í baðinu fór ég að finna fyrir smá verkjum. Þarna er klukkan u.þ.b. hálf tólf. Ég var viss um að þetta væru bara sömu fyrirvaraverkir og fyrri kvöld svo ég var ekkert að stressa mig á þessu. Þegar ég kom uppúr héldu verkirnir áfram og ágerðust frekar hratt en ég gerði samt heiðarlega tilraun til þess að horfa á Love Island. Það gekk ekki vel þar sem ég datt út á um 5 mínútna fresti af verkjum og tíminn á milli styttist ört. Þegar ég loks gafst upp og mamma dreif mig út í bíl voru 3-4 mínútur milli verkja og ég taldi verkina vera u.þ.b. 40 sekúndur. Þegar við komum upp úr göngunum, þar sem við fengum mynd af okkur þar sem mamma stress keyrði aaðeins of hratt, hringdi ég upp á deild til þess að láta vita að ég væri að koma. Ljósmóðirin spurði mig hinna ýmsu spurninga og sagðist svo ekki telja að ég væri komin nógu langt vegna þess að ég gat talað í gegnum verkina og spurði hvort ég treysti mér til þess að vera heima og hafa aftur samband ef verkirnir versnuðu. Ég sagðist ekki treysta mér til þess og hún bauð mér þá að koma í skoðun.

Processed with VSCO with b5 preset

Ég kom upp á deild klukkan 10 mínútur yfir 1 og á leiðinni inn á deild leið mér eins og fæturnir væru orðnir að hlaupi og gætu gefið sig á hverri stundu. Ég fer í skoðun og kemur þar í ljós að hríðarnar eru reglulegar, um mínúta að lengd og með 3-4 mínútur á milli en ég var þó bara komin með með 1,5 í útvíkkun. Á þessum tímapunkti sá ég fyrir mér að ég yrði heila viku í fæðingu þar sem einungis hafði bæst við 0,5 frá því á miðvikudaginn. Ég spurði hvenær yrði haft samband við Hólmsheiði þar sem Halldór var í gæsluvarðhaldi og beðið um að senda hann til mín og ljósmóðirin sagði að við myndum taka stöðuna á því undir morgun. Hún vildi ekki senda mig af sjúkrahúsinu en sagði ekki tímabært að fara inn á fæðingarstofu svo ég fór inn á sængurlegustofu þar sem hún ráðlagði mér að reyna að sofna eftir að hafa fengið verkjatöflur. Ég settist aðeins á æfingarbolta en fór svo upp í rúm til að reyna að sofna. Mér leið mjög illa þegar ég lagðist niður og eftir smá bras endaði ég á fjórum fótum uppi í rúminu. Þegar ljósmóðirin kom inn þarna ákvað hún að senda eftir Halldóri og eftir að hafa hringt upp á Hólmsheiði sagði hún að ég þyrfti að komast í glaðloftið og ætti að færa mig inn á fæðingarstofuna. Þarna var klukkan hálf 3.

Þegar ég er komin inn á fæðingarstofuna kasta ég upp og fann fyrir herping í maganum. Hálftíma seinna var herpingurinn svo orðinn að rembingsþörf og ég átti erfitt með að halda rembingnum niðri. Ljósmóðirin ákvað þá að kalla á sjúkraliða sem var á vakt ef ég skyldi vera að fara að eiga barnið. Ég var þá skoðuð og einungis með 5 í útvíkkun. Ég reyndi að anda mig í gegnum rembingsþörfina með glaðloftinu og ljósmóðirin lét mig snúa mér á ýmsa vegu og breyta um stellingar til að koma í veg fyrir rembing en það gekk ekkert. Halldór kom upp á deild um kortér yfir 3 og ég var þá búin að vera að anda að mér glaðlofti nánast stanslaust í hálftíma. Ég heyri ljósmóðurina og mömmu tala um það að hann sé kominn og heyri í honum koma inn en ég hafði misst nærri því alla sjón vegna notkunar á glaðloftinu. Hann kom að rúminu hjá mér og byrjaði að tala við mig og ég reyndi að láta eins og allt væri í góðu lagi en ég hafði ekki hugmynd hvoru megin við rúmið hann væri og vissi ekkert í hvaða átt ég ætti að snúa mér. Klukkan hálf 4 var ég byrjuð að rembast mikið, þá með 7 í útvíkkun. Rembingur hélt svo bara stöðugt áfram og fór allur kraftur og tími í að reyna að halda aftur af honum. Ég breytti sífellt um stellingar, notaði öndunartækni og glaðloftið og ljósmóðirin þurfti meira að segja að fara inn og ýta á móti höfðinu því drengurinn vildi út og nennti ekkert að vera að bíða eftir þessari útvíkkun. Einhverntiman um það leiti mundum við eftir playlistanum sem ég hafði gert svo ég þurfti að sjálfsögðu að biðja ljósmóðurina um að sækja hátalara og biðja um símann minn til þess að kveikja á tónlistinni. Stuttu seinna klárast útvíkkun, þá er klukkan hálf 5. Ég var ótrúlega fegin að geta rembst án þess að þurfa að halda aftur af mér svo ég var eiginlega bara rosa glöð að byrja í rembing. Ég var ekki jafn glöð að glaðloftið væri tekið af mér en var þó ekkert að hafa fyrir því að setja út á það. Alveg í lokinn þegar sársaukinn var sem mestur sagðist ég ekki geta þetta, ég vissi samt alveg að ég væri svo gott sem búin að þessu og veit ekki alveg hvers vegna ég hélt þessu fram því ég efaðist aldrei um að ég gæti klárað þetta. Ég var samt með yndislegt fólk í kringum mig sem hvatti mig áfram á þessum seinustu og verstu og drengurinn kom í heiminn 7 mínútur yfir 5 og fór beint á bringuna á mér. Halldór klippti naflastrenginn og fylgjan spíttis út í einum rembing 2 mínútum seinna. Ég rölti svo inn á sængurlegu með sjúkraliðanum og mömmu meðan Halldór varð eftir með ljósmóðurinni að klára að vigta og mæla drenginn. Þeir feðgar komu svo inn á sængurlegu og lágu saman og spjölluðu meðan ég hvíldi mig, ég var mjög þreytt enda búin að vaka í sólarhring og púla talsvert svo ég var hálf meðvitundarlaus en datt inn annað slagið. Halldór fékk að vera með okkur í 2 klukkutíma frá fæðingu og ég svaf nærrum því allan þann tíma. Hann var svo sóttur en fékk að koma aftur að heimsækja okkur í 2 klukkutíma eftir hádegi. Mamma gisti með okkur á sjúkrahúsinu og við fórum heim seinnipartinn næsta dag. 

Ég er óendanlega þakklát fyrir allt starfsfólkið á Akranesi sem gerði þessa reynslu yndislega, allt frá mæðraverndinni seinustu vikur fyrir fæðingu og þar til ég fór heim daginn eftir fæðingu.

Þangað til næst!

Karen Ásta

Fylgist með mér á instagram @karenasta

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s