Dásamleg rauðvínsmarineruð, fyllt önd

Eitt af því allra besta sem ég fæ er andakjöt. Þar sem ég er ekkert sérstaklega hrifin af villibráð er andakjötið frábær staðgengill fyrir rjúpu eða annað slíkt t.a.m. á jólunum eða gamlárskvöld. Hér er uppskrift að heilli, fylltri önd sem klikkar aldrei á mínum bæ 🙂

Undirbúningur

Passið að taka öndina úr frysti a.m.k. tveimur dögum áður en þið ætlið að elda hana svo hún nái að þiðna almennilega fyrir maríneringu. Oft eru keyptar endur illa reittar svo ef þið viljið borða kjötið með haminum á mæli ég með að skoða vel hvort það þurfi að hreinsa fjaðurstafi og annað slíkt áður en þið marínerið. Ég marínera öndina kvöldið fyrir eldun með bringuna niður (því þar er mesta kjötið). Í maríneringuna set ég rauðvín (ca 1-2 glös – það þarf ekki að spandera heilli flösku frekar en þið viljið), andakraft (ég kaupi andakraft frá Oscar), salt, pipar og einn heilan, grófskorinn lauk. Þessu leyfi ég að standa í steikarpotti með loki eða t.d. ofnskúffu með álpappír yfir.

Fylling

Til að öndin verði sem allra best er nauðsynlegt að fylla hana með tilheyrandi góðgæti. Í mína fyllingu set ég eftirfarandi (miðað við eina vel fyllta önd):

1/2 til 1 laukur
3-5 sveppir eftir stærð (best af öllu ef þið getið nálgast lerkisveppi)
Ca einn pakki fersk steinselja, fínsöxuð
1 og hálfur bolli brauðteningar eða brauð eftir smekk (skorið í teninga)
Einn poki furuhnetur (ca 80 grömm)
Þurrkaðar döðlur eftir smekk
Andakraftur
Salt og pipar
Rjómasletta

Laukinn og sveppina steiki ég í potti upp úr smjöri ásamt kryddinu. Þá bæti ég við steinseljunni, brauðteningunum, furuhnetunum og döðlunum (ágætt að slökkva undir hellunni en leyfa pottinum að standa á henni áfram). Að lokum bæti ég við rjóma, en hann er aðeins til þess ætlaður að gera fyllinguna að einskonar degi eða klessu sem er auðvelt að setja inn í öndina, fyllingin á ekki að verða eins og sósa 😉

Eldun

Þegar búið er að fylla öndina með fyllingunni (það er yfirleitt fitu/skinnflipar sem er hægt að leggja yfir opið til þess að loka svo fyllingin velli ekki út úr henni við steikingu) er ofninn hitaður í 170°C. Öndinni er skellt inn í ofninn með bringuna upp í lokuðum steikarpotti eða ofnskúffu með álpappír yfir í 45 mínútur. Athugið að rauðvínsmaríneringin á endilega að vera með í pottinum/skúffunni ásamt örlitlu smjöri og ca einu glasi af vatni. Þá er öndinni snúið og elduð áfram í aðrar 45 mínútur með bringuna niður. Passið að það sé alltaf um það bil botnfylli af vökva í pottinum/skúffunni en látið ykkur ekki bregða þó það sé mikil fita sem kemur af öndinni – þetta er mjög feitur fugl. Þá er öndinni snúið aftur við með bringurnar upp og steikt á sama hita í ca hálftíma. Að endingu er lokið tekið af pottinum/skúffunni og hitinn hækkaður í 220°C í síðasta korterið til að ná fallegri brúnun á öndina.

Sósa

Þegar öndin er komin langleiðina með steikingartímann er kominn tími til að huga að sósu. Ég tek soð úr pottinum/skúffunni og fylli u.þ.b. einn lítinn pott af því. Athugið að soðið er afar feitt og því nauðsynlegt að fleyta fitunni ofan af ef sósan á ekki að verða ólystug í áferð. Það geri ég með því að dreifa góðum skammti af hveiti (ca hálfan til einn desilíter) yfir soðið og leyfa því að standa þar til allt hveitið hefur sukkið til botns (ath alls ekki hræra á þessum tímapunkti!). Þá er hægt að veiða mestu fituna ofan af soðinu með ausu. Athugið að jafnvel þó ykkur finnist í fyrstu ekkert vera í pottinum nema fita þá er aðal byggingarefni sósunnar á botninum. Þegar þið hafið fleytt mestri fitunni ofan af soðinu er kominn tími til að kveikja undir hellunni og bæta við um einum desilítra af vatni og rjóma í soðið (ca einn til einn og hálfur desilítra til að byrja með og svo bætið þið við eftir þörfum). Það þarf í raun og veru ekki meira til þess að gera góða sósu en það er um að gera að smakka hana til og bæta við salti og pipar eftir þörfum.

Að endingu veljið þið gott meðlæti eftir smekk og njótið máltíðarinnar 🙂

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s