2018 – Lífið er rússíbani

Síðan 2012 hef ég haft það fyrir sið að nýta tímann í kringum jól og áramót til þess að líta um öxl og skoða hvað hefur gerst á árinu sem er að líða. Mér finnst mikilvægt að horfa bæði á það jákvæða og það neikvæða því reynslan er það sem mótar okkur sem manneskjur. Að sama skapi þykir mér afar mikilvægt að nýta tækifærið til þess að þakka vinum og vandamönnum og láta þá vita að ég hugsi til þeirra og að mér þykir vænt um þá. Mig langar til þess að deila hugleiðingum mínum um árið 2018 hér með ykkur.

Árið 2018 hefur verið mér bæði erfitt og lærdómsríkt. Í byrjun árs vann ég við kennslu, en ég er afar þakklát fyrir þá starfsreynslu enda engin önnur vinna sem hefur veitt mér sambærilega gleði þrátt fyrir mikið álag á köflum. Þegar starfsárið var á enda stefndi í fyrsta sumarfrí sem ég hef nokkurn tímann átt á launum, en fyrsta mánuðinum af því eyddi ég í einskonar smækkaða útgáfu af Evrópureisu. Eftir afar notalega viku í Ungverjalandi með kennaraliðinu var förinni heitið til Póllands þar sem ég fékk hraustlega áminningu um afleiðingar stríðs og voðaverka, meðal annars með heimsókn í Auschwitz. Þaðan lá leiðin til Belgíu á fyrstu erlendu tónleikahátíðina mína, Graspop, en hátindur hennar var vafalaust fólginn í því að uppfylla langþráðan draum táningsárana og sjá Marilyn Manson á sviði. Að lokum fékk ég tækifæri til þess að kíkja í stutta en afar ánægjulega heimsókn til vina minna, en það var lokapunktur ferðarinnar fyrir utan stutt stopp í Amsterdam á leiðinni í flug til Íslands. Restinni af sumrinu eyddi ég síðan með fjölskyldunni á Egilsstöðum ásamt því að vinna þar sem móttökuritari á heilsugæslunni.

Í byrjun þessa árs hóf ég líka ferli til bættrar andlegrar heilsu, sem vissulega er hvergi nærri lokið en hálfnað verk þá hafið er. Eftir um áratug af mismunandi tímabilum kvilla á borð við svefnleysi, kvíða, þunglyndis og tilfinningadoða var sannarlega kominn tími til að gera eitthvað í málunum. Það gerði ég meðal annars með hjálp sálfræðinga, lyfja og Stígamóta, en þar fékk ég hjálp við að endurskilgreina ákveðna lífsreynslu sem misnotkun. Erfiðasta skrefið hefur verið að viðurkenna það fyrir sjálfri mér en ferlið í kjölfarið felst í því að losna við gamla og rótgróna skömm. Á þessu ári lauk jafnframt tæplega 5 ára sambandi mínu, en þrátt fyrir að sú ákvörðun hafi verið hundleiðinleg og erfið var hún gerð í sátt og samlyndi vegna ólíkra framtíðarsjónarmiða.

Í haust tóku síðan við enn aðrar breytingar í lífi mínu þegar ég flutti til Svíþjóðar þar sem ég stunda nú meistaranám í máltækni við Gautaborgarháskóla. Það er meira en að segja það að leggja af stað einn til annars lands með grunnþekkingu í tungumálinu sem þar er talað, í nám sem er allt öðruvísi uppbyggt en það sem maður hefur áður lært og er kennt á ensku, án þess að hafa nokkurn grunn í því fagi sem virðist skipta þar mestu máli (þ.e. forritun – málvísindagrunnurinn kemur mér leiðinlega stutt í þessu námi). Eftir miklar tilfinningasveiflur og hálfgerða uppgjöf eftir fyrsta lokaprófsfall lífs míns held ég ótrauð áfram og stefni á það að eyða jólafríinu mínu í stærðfræðilærdóm. Fólkið sem ég hef kynnst í þessu námi er frábært og gerir það sannarlega þess virði að halda áfram puðinu. Svíþjóð hefur sína galla eins og öll lönd en almennt er ég ánægð með lífið í Gautaborg, ekki síst eftir að ég flutti inn með vinkonu minni. Við erum þessa dagana búnar að vera að baka saman lakkrístoppa og telja niður dagana í Íslandsför og jólafrí. Þá hef ég loksins fengið vinnu sem forfallakennari við tvítyngdan skóla þar sem ég ætla skammlaust að nýta mér börnin til að bæta sænskukunnáttuna mína (sem er almennt mun verri en þeirra).

Það má með sanni segja að árið 2018 hafi átt sínar hæðir og lægðir. Umfram allt hefur það þó kennt mér að standa með sjálfri mér og hjálpað mér að brjótast út úr skelinni. Tími minn hér með Uglunum hefur verið afar skemmtileg og jákvæð reynsla og gefið mér færi á því að ræða ýmislegt sem skiptir mig máli og í leiðinni opna mig meira en ég hef áður gert. Viðbrögðin frá ykkur fylgjendum okkar hafa verið frábær og ég held ég tali fyrir okkur allar þegar ég segi að við metum þau mikils. Að lokum vil ég nota tækifærið og óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Lífið er stundum rússíbani en það er fólkið í kringum okkur sem gerir ferðina þess virði.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s