Að týnast í kvíðastörunni

Bildresultat för anxiety stare

Þú ert að vinna verkefni í skólanum og þér finnst þú ekki skilja upp né niður í því.
Þú ert út í búð, það eru til sjö tegundir af jógúrti og þú hefur ekki hugmynd um hverja þú átt að kaupa.
Þú ert í hópi fólks sem á í skemmtilegum samræðum og þig langar virkilega til þess að fylgja því sem er í gangi.

En í staðinn fyrir að gera það sem „eðlilegt fólk“ gerir eins og að velja jógúrtið, taka þátt í samræðunum eða biðja um aðstoð við verkefnið þá slekkur heilinn bara á sér. Þú frýst í ákveðnum skilningi, sónar út, starir á óræðan punkt fyrir framan þig, gerir og segir ekkert, bara starir. Kannski gerirðu þér ekki einu sinni grein fyrir því að þú sért dottinn út. Kannski áttarðu þig allt í einu á því að tíminn er meira en hálfnaður og þú hefur ekki hugmynd um hvað kennarinn hefur sagt. Eða þú ert búin að standa fyrir framan jógúrtrekkann í hálftíma.

Þetta er kvíðastaran svokallaða. Hún birtist hjá mér þegar mér finnst hlutirnir orðnir yfirþyrmandi og það er of margt fljótandi í hausnum á mér. Mér finnst ágætt að líkja þessu við rafhlöðusparnað í síma eða tölvu. Ég er á síðasta orkudropanum svo til þess að spara orku þá slökknar á öllum hugsununum. Í mínu tilfelli fer heilinn í frí en ég vinn þeim mun harðar að því að rífa alla húð í burtu í kringum neglurnar á fingrunum á mér. Ég veit að ég á að vera að gera eitthvað og fæ jafnvel samviskubit yfir því að vera ekki að sinna því, en ég kem engu í verk. Stari bara út í loftið.

En hvað er hægt að gera?

Núvitund

Hvernig áttu að losna út úr ástandi sem þú gerir þér ekki endilega einu sinni grein fyrir að sé að eiga sér stað fyrr en löngu seinna? Það er mikilvægt að tileinka sér sjálfsvitund, þ.e.a.s. vera meðvitaður um það sem er að gerast í líkama og sál akkúrat á þessu augnabliki. Því meira sem þú einblínir á það sem er að gerast akkúrat núna, því líklegra er að þú takir eftir því að þú ert að týnast í kvíðastörunni. Til þess er gott að tileinka sér núvitund. Hér má finna upplýsingar um núvitund og hlekki á æfingar.

Dreifðu huganum

Ef þú finnur að hlutirnir eru orðnir yfirþyrmandi og heilinn er að byrja að slökkva á sér, gerðu þá eitthvað annað sem tengist ekki því sem veldur þér kvíða. Ef kennslustundin er flókin og þér finnst erfitt að halda athygli, fáðu þér þá blað og blýant og teiknaðu mynd eða krotaðu það fyrsta sem þér dettur í hug. Ef þú nærð ekki að halda huganum við samræðurnar, stattu upp og fáðu þér drykk eða skrepptu augnablik á klósettið. Ef verkefnið er orðið yfirþyrmandi, stattu þá upp og farðu í smá göngutúr. Þér á eftir að ganga betur þegar þú sest niður aftur. Og vel á minnst, hreyfing hjálpar. Hún er engin töfralausn, en hreyfing helst í hendur við andlega líðan. Hreyfðu þig, þér mun líða betur á eftir.

Skrifaðu niður það sem þú þarft að gera

Það borðar enginn fíl í heilu lagi. Skerðu hann niður í bita og borðaðu einn bita í einu. Hvað er það fyrsta sem þú þarft að gera eða ákveða? Byrjaðu á því, ekki hugsa um allar hinar ákvarðaninar sem þú þarft að taka. Okei, þér tókst að taka þessa ákvörðun eða leysa þetta verkefni, hvað er næst? Smækkaðu stóra verkefnið niður í fleiri, smærri verkefni og hlutirnir verða ekki jafn yfirþyrmandi lengur. Mér finnst gott að gera skriflega lista til þess að hjálpa mér við það ferli.

Leitaðu ráða hjá öðrum

Sama hvort það er vinur, ættingi, kennari, yfirmaður eða sálfræðingur. Leitaðu ráða hjá öðrum sem gæti hafa gengið í gegnum það sama og þú (eða fær borgað fyrir að hjálpa þér!). Stundum hjálpar einfaldlega að segja hlutina upphátt, þrátt fyrir að viðkomandi hafi engin sérstök ráð hjálpar að ræða það sem er í gangi og fá aðra sýn á málin.

Umfram allt, ekki rífa sjálfa/n þig niður fyrir að hafa sónað út og „misst af“ hálfum tíma eða hálfu samtali. Það gerðist, það var ekki það sem þú ætlaðir þér, en við gerum öll mistök. Þú gerir bara betur næst.

Bildresultat för mistakes meme

+

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s