Graspop metal meeting 2018

Dagana 21.-24. júní síðastliðinn var tónlistarhátíðin Graspop haldin í bænum Dessel í Belgíu. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór á tónlistarhátíð út fyrir strendur Íslands og raunverulega í fyrsta sinn sem ég fór á hátíð á þessum skala, en hátíðina sóttu 200.000 manns. Það var ákveðin upplifun fyrir litla Íslendinginn að sjá allt þetta fólk safnast saman í þessum annars litla bæ og sjá allt umstangið í kringum hátíðina.

Það fyrsta sem mætti okkur þegar við mættum á hátíðarsvæðið var massíf biðröð til þess að skipta miðum út fyrir armböndin sem tryggðu manni inngöngu. Eftir að vinalegur Hollendingur benti okkur á að við þyrftum fyrst að losa okkur við farangurinn okkar áður en við færum í þessa ábyggilega nokkur þúsund manna biðröð tók við leitin að rétta gistiplássinu, en við ákváðum að splæsa í gistingu í kofabyggð sem bar það krúttlega nafn Skullotel í stað þess að tjalda á tjaldsvæðinu. Þrátt fyrir að Skullotelið hafi verið rándýrt mæli ég hiklaust með því, enda var maður þar með alfarið laus við veður og vinda, hafði lás til að skilja dótið eftir á öruggum stað, hafði auðveldan aðgang að klósettum og sturtu og svo fylgdi kofanum morgunverðarhlaðborð alla dagana.

Þegar við höfðum okkur loksins inn á hátíðarsvæðið aftur og í gegnum miðabiðröðina var næsta skref að komast í gegnum öryggisleitina. Ég var mjög ánægð með öryggisgæslu á svæðinu sem var ströng (armbandið var skannað, maður fór í gegnum málmleitarhlið og það var leitað í töskum og öðru tilheyrandi áður en maður fékk inngöngu í hvert einasta skipti sem maður fór inn eða út af svæðinu) en fólst að mestu leyti alfarið í leit og ströngu eftirliti en ekki vopnuðum öryggisvörðum og/eða löggum. Mér er meinilla við byssur og vopn þrátt fyrir að ég geri mér grein fyrir hættunni sem getur skapast í svona margmenni svo það hentaði mér ágætlega. En starfsfólk hátíðarinnar á mikið hrós skilið fyrir góða skipulagningu og var vel að verki staðið á öllum sviðum, m.a. urðu klósettin ekki ógeðsleg á neinum tímapunkti þrátt fyrir augljósan átroðning. Þá voru gestir hvattir til að endurvinna á mjög skemmtilegan hátt sem ég hvet aðrar hátíðir til að tileinka sér, en með því að skila inn 20 plastglösum í endurvinnslu fékk maður tækifæri til þess að veiða þrjár gúmmíendur sem gátu gefið 0-3 stig. Það fór síðan eftir stigafjölda hvaða vinning maður fékk fyrir veiðina, en við fengum bæði ferð í Parísarhjólinu og klessubílaferð.

Á hátíðarsvæðinu var risastór metalmarkaður með allskonar vörum, hljómsveitarbolum, -peysum og öðru tilheyrandi (meira að segja var metal barnafataverslun sem kitlaði svolítið eggjastokkana), skóm, pilsum og kjólum, leðurjökkum, vínilplötum og svo framvegis og framvegis. Þá voru allskyns veitingar seldar á svæðinu, pítsur, pasta, pítur, hamborgarar, rif, pulled pork, vegan samlokur og að sjálfsögðu belgískar kartöflur – sem eru nefnilega ekki franskar (munið það ef þið komið einhverntíman til Belgíu að biðja ekki um french fries, þeir taka kartöflurnar sínar mjög alvarlega).

En að máli málanna sem er að sjálfsögðu tónlistin. Hvað mig varðar stóð Marilyn Manson lengst upp úr, enda hef ég verið aðdáandi síðan ég var um það bil 13 ára. Settlistinn innihélt að mestu slagara, m.a. Antichrist superstar með gamla góða púltinu sem gladdi mig mjög. A perfect circle voru næstir þar á eftir með frábæra tónleika, enda magnað live band. Ozzy sannaði það að maður þarf ekkert að versna þó maður eldist, svona fyrir utan það að sviðsmyndin var brjáluð með laser, 3D heilmyndum, ljósum, reyk og öllu sem maður hefur augljóslega bara efni á ef maður er Ozzy Osbourne. Hörmungarbandið hans Johnny Depp vann sér inn prik með því að taka Alice Cooper lög inn á milli (eflaust það næsta sem ég mun komast Alice Cooper giggi þrátt fyrir annars arfalélegt show). Heilung voru gríðarflott með nokkuð bókstaflega töfrandi tóna og ritualistic andrúmslofti. Þá kom Galactic Empire gríðarlega á óvart með bráðskemmtilegum tónleikum – en allir meðlimir hljómsveitarinnar klæðast Star Wars búningum og öll lögin þeirra byggja á tónlistinni úr Star Wars (fyrir utan dásamlegan aulabrandara þar sem þeir köstuðu uppblásnum Death star sundbolta út í crowdið með orðunum „look, we blew up the Death star!“).

Graspop var mjög skemmtileg upplifun og aftur vil ég hrósa skipuleggjendum fyrir að standa mjög vel að öllu skipulagi. Það er þó augljóst mál að á 200.000 manna hátíð er stemningin allt öðruvísi en á litlu sviði á litla Íslandi. Að sumu leyti fannst mér skemmtilegra að horfa á hljómsveitirnar sem spiluðu á minni sviðum en aðalsviðunum því tilfinningin að komast í návígi við tónlistarmennina tapast rosalega á risavöxnu sviði. En þrátt fyrir það var frábært að fá tækifæri til þess að sjá bönd á borð við Iron Maiden, Limp Bizkit (sem voru vel á minnst merkilega góðir), Arch Enemy og svo mörg fleiri. Ég mæli hiklaust með því að prófa að skella sér á svona stóra hátíð því þrátt fyrir hvað allt var risavaxið myndast samt alltaf þessi sama, góða tilfinning um að tilheyra samfélagi metalhausana, fjölskyldunni á ættarmótinu sem kemur saman í þeim eina tilgangi að hafa gaman og njóta góðrar tónlistar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s