Hápunktar úr utanlandsferðinni minni

Eins og glöggir snapchatfylgjendur Uglanna hafa eflaust tekið eftir eyddi ég síðustu þremur vikum í útlöndum. Þetta var í fyrsta skipti í langan tíma sem ég tók mér sumarfrí að einhverju ráði og ég naut þess í botn. Ferðin byrjaði í Ungverjalandi, þaðan fór ég til Póllands og endaði svo í Belgíu (auk þess að eyða u.þ.b. 2 klukkutímum í Amsterdam fyrir flugið heim). Mig langar að segja ykkur frá því helsta sem dreif á daga mína í þessari ferð.

Ungverjaland

 

Fyrsta vikan í Ungverjalandi var í rauninni vinnuferð þar sem ég fór með samkennurum mínum í heimsókn í ungverskan grunn- og tónlistarskóla. Það var mjög áhugavert að sjá muninn á íslenska og ungverska skólakerfinu og hvar áherslurnar liggja hjá þeim. Þar má meðal annars nefna að þrátt fyrir verulega fjársvelt skólakerfi þar sem kennarar fá um það bil 500 evrur á mánuði (sem er langt undir 100 þúsund íslenskum krónum) standa þau tiltölulega framarlega í tæknimálum og krakkarnir vinna með allskyns kennsluforrit í spjald- og borðtölvum skólans. Þá var einnig mjög skemmtilegt að kynnast tónlistarskólanum sem er mjög flottur og greinilega mikið í hann lagt miðað við fjármagn.

Eftir að skólaheimsóknirnar voru frá tók við allskyns túristabrölt. Við röltum meðal annars um Kastalahæðina, skoðuðum frelsisstyttu Búdapest sem trónir yfir borginni, sigldum á Dóná, fórum í eitt af ótalmörgum jarðhitaböðum borgarinnar (en Búdapest er þekkt fyrir mikla baðmenningu og má meðal annars finna þar rómverskar rústir þar sem mikið var lagt upp úr baðhúsum) og skoðuðum ungverska menningu í mat og menningu. Eitt það merkilegasta sem mér fannst að skoða var safn sem búið er að gera í gömlu hellakerfi sem þjónaði sem sjúkrahús m.a. í seinni heimsstyrjöldinni og seinna meir sem kjarnorkubyrgi í kalda stríðinu. Þar er búið að koma fyrir heilmiklu vaxmyndasafni sem gefur óhugnarlega góða tilfinningu fyrir ástandinu sem var á þeim tíma sem 600 manns hýrðust í sjúkrarými sem var upphaflega byggt fyrir 50 manns.

Ég borðaði ekki eina máltíð í Ungverjalandi sem ég var ekki ánægð með. Ungversk matarmenning einkennist mikið af kjöti og rótargrænmeti en sallat virðist að mestu leyti einungis þjóna sem skraut (venjulega var ca eitt alfalfa lauf á disknum ásamt hálfum kirsuberjatómati). Þá eru þeir heimsfrægir fyrir paprikukryddið sitt sem fæst bæði sætt, sterkt og reykt á hverju götuhorni.

Pólland

 

Næsta stopp á eftir Ungverjalandi var Kraká í Póllandi. Þangað langaði mig fyrst og fremst að fara til þess að sjá hinar óhugnarlegu minjar Auschwitz útrýmingarbúðanna. Sú ferð tók um 8 klukkustundir í heild (með rútuferðum og pásum) og hún tók talsvert á andlega. Sama hvert litið er má sjá dánarstað manna, kvenna og barna sem höfðu sér það eitt til saka unnið að fæðast sem gyðingar, sígaunar eða annað sem nasistarnir töldu óæskilegt. Eitt átakanlegasta herbergið geymir hár gyðingakvenna sem nasistarnir söfnuðu saman til þess að nýta í ýmiskonar efni, meðal annars í sokka. Eitt og hálft tonn af hári, nánar tiltekið. Þá stendur gasklefi númer 1 að mestu óbreyttur frá því í stríðinu, en hinir gasklefarnir eru rústir einar vegna þess að nasistarnir sprengdu þá sjálfir þegar ljóst var að stríðið var tapað. Óteljandi skór, greiður, gleraugu, töskur, pottar og pönnur (sem fangarnir tóku með sér vegna þess að þeim var að sjálfsögðu ekki sagt frá raunverulegum tilgangi búðanna) er jafnframt að finna auk fatnaðs á allt frá ungabörnum til fullorðins fólks.

Leyfar styrjaldarinnar er að finna hvert sem litið er í austur Evrópu og ekki síst í Póllandi. Í Kraká er að finna gettóhverfi þar sem gyðingum var smalað saman á meðan þeir biðu eftir að komast í útrýmingarbúðir. Í miðju hverfinu standa 68 stólar, en hver og einn þeirra táknar 1000 fórnarlömb útrýmingarbúðanna. Sumir eru í barnastærðum. En trúarmenning Póllands er líka mjög sjáanleg í Kraká þar sem þverfótar varla fyrir kaþólskum kirkjum og sínagógum gyðinga. Hvert húsið er öðru fallegra og gríðarlega mikill íburður í öllum skreytingum, sérstaklega í kirkjunum.

Ég eyddi ekki nógu löngum tíma í Kraká til að geta dæmt pólskan mat almennilega, en þó var ég ánægð með allt sem ég smakkaði. Kjötmenningin er nokkuð ráðandi þarna líka, auk þess sem brauð (eða dumplings) virðist mjög algengt.

Belgía

belgía

Lokastoppið í ferðinni minni var Belgía, en því stoppi eyddi ég að mestu leyti á tónlistarhátíðinni Graspop sem ég er að hugsa um að fjalla um sérstaklega í öðru bloggi. Ég var ekkert sérstaklega ánægð með matinn í Belgíu almennt, en þó er vert að nefna frönsku kartöflurnar – sem reyndar eru alls ekki franskar, því þær eru í raun og veru belgísk uppfinning. Þeir taka þessa staðreynd mjög alvarlega og því mæli ég með að varast alfarið að tala um french fries ef leiðin liggur til Belgíu :p

Að lokum

auschwitz

Munum að vera þakklát fyrir það að þrátt fyrir leiðinleg sumur og snjó um vetur búum við þrátt fyrir allt á afar friðsælli eyju sem hefur komist nánast alfarið hjá hörmungum á borð við þær sem gengu yfir pólsku þjóðina (og aðrar þjóðir) í seinni heimsstyrjöldinni. Gleymum ekki að vera þakklát fyrir það að göturnar okkar eru ekki fullar af alvopnuðum hermönnum, tilbúnum til þess að skjóta niður mögulega hryðjuverkamenn á annars friðsælum tónlistarhátíðum. Gleymum því ekki hvað við erum heppin að búa við það tiltölulega öryggi sem fylgir íslensku samfélagi. Og pössum upp á hvert annað.

-Steinunn

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s