Að yfirgefa klakann

Ég hef tvisvar sinnum farið út fyrir landsteinanna í lengri tíma, þ.e. til þess að setjast þar að tímabundið. Í fyrra skiptið fór ég á vegum samtaka sem þá hétu Námsferðir en heita núna Kilroy. Þá fór ég til Montpellier í Frakklandi þar sem ég eyddi einum mánuði í tungumálaskóla og tveimur í starfsþjálfun á hóteli. Í seinna skiptið fór ég til Montréal í Kanada í skiptinám í frönsku og var þar eina önn. Mig langar að segja ykkur aðeins frá upplifun minni af þessum ferðum mínum.

Fyrsti mánuðurinn í Montpellier var að mestu leyti bara frábær. Ég flutti inn á franska fjölskyldu, gömul hjón og um þrítugum syni þeirra. Ég komst að því strax á flugvellinum að menntaskólafranskan mín dugaði mjög skammt og ég var svo gott sem alveg mállaus. Sonur hjónanna talaði einhverja ensku svo ég gat spjallað við hann en annars voru samræður mínar við fjölskylduna að mestu leyti í formi mjög einfaldra spurninga og svara og handapats. Í skólanum var ég spurð að því hvort ég hefði svindlað á skriflega prófinu því mér gekk mjög vel á því, en herfilega illa á munnlega prófinu (sem er frekar lýsandi fyrir tungumálakennslu á Íslandi almennt – en jafnframt birtingarmynd félagskvíðans míns). Þessi mánuður leið fljótt, ég fór í allskonar ferðir með skólanum í nærliggjandi bæi og skoðaði mig um í Montpellier. Í stuttu máli sagt var þetta góður tími og ég skemmti mér vel.

En síðan kom að því að færa mig yfir á hótelið þar sem ég átti að vera í starfsþjálfun. Ég hafði valið þessa leið vegna þess að mig langaði til þess að upplifa „alvöru Frakkland“, þ.e. ekki bara verndað umhverfi innan veggja skólans. Þessi tími hófst á því að enginn virtist vita nákvæmlega hvenær ég ætlaði að koma eða hvað ég var að fara að gera. Hótelið sem ég vann á var í svona 20-30 mínútna lestarfjarlægð frá miðbænum. Húsið, sem ég átti að búa í ásamt finnskri stelpu sem var í sama prógrammi, var ekki upphitað og hitastigið á næturna í október var vægast sagt ekki hátt. Auk þess voru villikettir út um allt sem flökkuðu inn og út úr húsinu eftir eigin hentisemi. Við kvörtuðum yfir aðstöðunni og vorum færðar í herbergi á hótelinu, aftur í frystikistuna og yfir á systurhótel í nágrenninu samtals átta sinnum á þessum tveimur mánuðum, ef ég man rétt.

Starfsfólkið á hótelinu var flest í kringum fertugt og yfir og þar var nákvæmlega ein manneskja sem talaði einhvern vott af ensku. Það er erfitt að lýsa því hvernig það er að vera nánast alveg mállaus í marga mánuði og þurfa að hafa samskipti við fólk sem ýmist finnst það algjörlega fáránlegt að maður tali ekki tungumálið þeirra eða gefst upp eftir smá stund þegar maður skilur ekki nógu mikið til þess að eiga almennilegar samræður. Aðstoðarhótelstjórinn var mjög svo dramatísk díva sem þoldi það ekki að ég skildi hana ekki og lét mér líða eins og ég væri fáránlega heimsk að fara ekki hraðar fram í frönskunni. Mér fannst ég einangrast sífellt meira og á endanum var ég komin með svo mikla heimþrá að ég stytti ferðina (sem átti upphaflega að vera hálft ár), sótti um í háskólanum og fór heim um jólin.

Ég ákvað að eyða síðustu önninni minni í BA námi við Háskóla Íslands í skiptinámi. Það var Montréal í Kanada sem varð fyrir valinu, fyrst og fremst vegna þess að kærastinn minn kom með mér og ég vildi læra á frönsku en hann á ensku. Montréal er tvítyngd borg og uppfyllti því öll okkar skilyrði. Borgin er yndisleg, mjög alþjóðleg og skemmtileg blanda af gamaldags evrópskum byggingum og hreinræktaðri amerískri menningu. Það er mikið til í staðalímynd Kanadabúa sem vilja allt fyrir mann gera. Þeir eru vinalegir, hjálplegir og alltaf til í að skipta yfir í ensku – sem reyndar gerði mér allt of auðvelt fyrir að sleppa frönskunni.

Námið var krefjandi en skemmtilegt. Ég tók námskeið í talþjálfun, 19. aldar bókmenntum, franskri málsögu Québec, málvísindum og bókmenntum og menningu frönskumælandi landa. Það síðastnefnda var það allra skemmtilegasta námskeið sem ég sótti í frönskunáminu mínu, enda kenndi það mér ótrúlega margt um ólíka menningu, hefðir og venjur landa sem ég vissi ekki einu sinni fyrirfram að væru frönskumælandi. Það er nefnilega oft þannig að við, sem búum í þessari hvítu, vestrænu sápukúlu, lærum ekki nógu mikið um menningu landa sem er ólík okkar eigin. Það er reyndar einkennandi fyrir tungumálanám almennt, það opnar dyr að alþjóðasamfélaginu og huga manns í leiðinni.

Önnin í Montréal leið allt of hratt og þó hún hafi vissulega verið krefjandi var þetta yndislegur tími sem kenndi mér ótrúlega margt um sjálfa mig. Ferðin var upphafið að því ferli sem ég er í núna þar sem ég ætla að byggja mig upp og læra að kynnast mér betur og þykja vænt um sjálfa mig. Ég mæli tvímælalaust með því að fara í skiptinám ef maður á kost á því, enda var upplifunin allt önnur en í Frakklandsferðinni. Það skiptir því mestu máli að kynna sér vel utanumhaldið sem viðkomandi samtök eða stofnanir bjóða upp á og passa vel upp á að allt sé vel skipulagt frá A til Ö. Það er einstök upplifun að yfirgefa klakann þó það sé ekki nema í nokkra mánuði, enda er Ísland ótrúlega smátt og lokað samfélag í stóra samhenginu. Skiptinám er mikið þroskaferli sem gefur manni færi á því að kynnast annari menningu og opna huga sinn gagnvart umheiminum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s