Einkenni félagskvíða og mín upplifun af honum

Fyrir um ári síðan sagði ég hikandi við kærastann minn að ég héldi að ég gæti mögulega verið með félagskvíða. Svarið hans var „uuu.. döö?“.

Félagskvíði er ein algengasta kvíðaröskunin og lýsir sér í þrálátum kvíða í félagslegum aðstæðum þar sem fólk hefur áhyggjur af því að koma illa fyrir og að aðrir myndi sér neikvæða skoðun á því. Fólk sem þjáist af félagskvíða reynir þá ýmist að koma sér hjá því að lenda í slíkum aðstæðum eða þraukar í gegnum þær þrátt fyrir mikinn kvíða. Þessar aðstæður geta verið af ýmsum toga, m.a. veislur eða partý, að tala í símann, að koma fram opinberlega (t.d. halda ræðu eða spila á tónleikum) o.s.fr.v.

Á heimasíðu Tölum saman, sem tilheyrir Kvíðameðferðarstöðinni, kemur fram að: „helstu líkamlegu einkenni félagsfælni sem fólk óttast oft að aðrir taki eftir eru roði, sviti, skjálfti eða spennt raddbönd. Hugurinn getur tæmst og fólk átt erfitt með að einbeita sér. Tilfinningaleg einkenni félagsfælni eru m.a. kvíði, óöryggi, skömm, pirringur og höfnunartilfinning“.

d97dd478e4d642dad32ac5a4b5f35c20

Félagskvíðinn minn á margt sameiginlegt með þessari lýsingu. Frá því að ég var pínulítil hefur mér fundist afar óþægilegt að hringja eða svara í símann ef viðmælandinn er ókunnug manneskja. Stundum hef ég hreinlega ekki svarað í símann, einkum ef um heimasíma foreldra minna er að ræða en ekki gemsann minn. Ég reyni oftast að leita að heimasíðum fyrirtækja og sjá hvort hægt sé að senda þeim tölvupóst í staðinn eða hvort boðið er upp á netspjall. Ég fór þó langt út fyrir þægindarammann í fyrra þegar ég byrjaði á vinnustað þar sem starfið mitt fólst að miklu leyti í því að svara í símann. Eftir nokkur óþægileg símtöl með hnút í maganum og skjálfta í röddinni varð þetta smám saman auðveldara og ég stóð mig ágætlega eftir það.

Social-Anxiety-Disorder

Eitt helsta einkenni félagskvíðans míns er þó að eiga í erfiðleikum með „small talk“, einkum við fólk sem ég þekki lítið eða ekkert. Í veislum og partýum þar sem ég þekki mjög fáa líður mér óþægilega, veit ekki hvað ég á að segja, óttast það að stama eða „blanka“ (þ.e. allt sem ég ætlaði mér að segja þurrkast út í hausnum á mér) og oftast nær endar það með því að ég sit einhversstaðar og segi lítið sem ekki neitt. Ef einhver kemur og talar við mig að fyrra bragði get ég þó oftast tekið þátt í samræðum án vandræða. Munið það, ef þið hafið aldrei upplifað svona tilfinningar, að þögli lónerinn í horninu, sem gæti litið út fyrir að vera fúll og leiðinlegur, gæti einfaldlega verið að berjast við eigin kvíðahugsanir. Prófið að ræða við hann að fyrra bragði, það hjálpar ótrúlega þegar aðrir taka af skarið.

social-anxiety-toronto-1

Þessi ótti smitaði sig líka alveg rosalega yfir í frönskunámið mitt. Þrátt fyrir að geta tiltölulega auðveldlega skrifað franskan texta (a.m.k. á meðan ég var ennþá í góðri æfingu) átti ég ennþá, eftir fjögur ár í námi, erfitt með að koma frá mér einföldustu setningum því í hvert skipti sem átti að láta á það reyna að tala frönskuna fraus ég, stamaði og „blankaði“ svo fá orð komust alla leið frá huganum á varirnar. Því meira sem ég reyndi því heimskari fannst mér ég vera, hvers vegna var ég svona miklu verri en allir hinir? Hvers vegna gat ég þetta ekki ef allir aðrir gátu þetta? Hvað var eiginleg að mér?

Þetta er ein helsta ástæða þess að ég lengi hlaðið á mig eins mörgum verkefnum og ég get. Það er nefnilega ekki tími til þess að hugsa þessar hugsanir ef maður heldur sér nógu helvíti uppteknum. Á tímabili var ég í sumarskóla, fullri vinnu og aukavinnu, stjórn leikfélagsins í heimabæ mínum og tók þátt í leikriti á sama tíma. Síðar flutti ég til Reykjavíkur, tók tvær gráður á sama tíma, vann með því, var formaður nemendafélags frönskunnar og í stjórn nemendafélags íslenskunnar, á sama tíma. Því fleiri hlutverk sem ég gat tekið að mér, því minna þurfti ég að feisa fólk sem bara ég sjálf.

„Uuu, döö“, sagði hann. Því mér hreinlega datt ekki í hug að það gæti verið þetta sem háði mér svona svakalega í lífinu. Ég hef lengst af verið opin með þá andlegu kvilla sem hafa hrjáð mig í gegnum tíðina en ég hreinlega hafði aldrei sett þetta í samhengi fyrr en þarna. Ári síðar er ég loksins byrjuð að vinna í sjálfri mér með hjálp sálfræðings og bráðum lyfja. Ég stefni ótrauð á bata. Ef einhver þessara einkenna hrjá þig, ekki hika við að leita þér aðstoðar. Hún er þarna úti, maður þarf bara að taka fyrsta skrefið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s