Hamingjan handan við hæðina

Þegar ég var svona 11-12 ára var ég að byrja að uppgötva sjálfa mig sem sérstaka mannesku en ekki bara barn. Rétt eins og svo margir unglingar var ég að byrja að finna út hvað gerði mig að því sem ég var og er, hvað það er sem gerir mig sérstaka og ólíka öðrum á mínum aldri. Ég var 12 ára, að ég held, þegar ég uppgötvaði plötuna Nevermind með Nirvana. Ég man svo greinilega eftir því þegar ég stóð, í kristnilegum sumarbúðum við Eiðavatn (síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar), þegar lagið Smells like teen spirit ómaði yfir ganginn þar sem ég var að leika mér og ég fattaði að já, þetta er tónlistin mín. Þetta passar. Þetta er ég.

Í sjöunda bekk byrja ég að mála mig, öðruvísi en hinar stelpurnar sem ég dæmdi mjög hart fyrir að mála sig með ótal lögum af meiki og púðri. Þær máluðu sig svo mikið, þó ég væri með eyeliner niður á höku, þá neibb, ég var ekki eins og þær. Ég byrja svo fljótlega að klæða mig öðruvísi en aðrir, í svörtum fötum, hljómsveitarbolum o.s.f.r.v. Með það á heilanum að ég sé bara ég, en aðrir séu „póserar“ og „feikers“. Semsagt, „þessi týpa“.

Í framhaldi af því byrjar eineltið. Þetta tímabil sem markar mig enn þann dag í dag. Það var nóg að skera sig úr hópnum. Það var nóg að vera öðruvísi, þessi týpa. Það var nóg til þess að ég gat ekki labbað úr einni kennslustofu yfir í aðra í grunnskólanum mínum án þess að það væri hrópað á eftir mér. Það var nóg til þess að ég fékk viðurnefni sem flestir í skólanum þekktu og notuðu, ég var nefnilega ekki Steinunn, ég var „emo goth goth“. Það var nóg til þess að ég var elt og það var hrópað á eftir mér, það var nóg til þess að ég var kölluð frík og minnt á að skera mig í rétta átt (það er, sjáðu til, down the road, not accross the streets, kids. HEHEHE).

Það var nóg til þess að einn strákur tók sig til ásamt tveimur vinum sínum og elti mig á röndum, kallaði á eftir mér, spurði eftir mér í kennslustundum, elti mig heim til mín, hringdi í gemsann minn og í heimasímann minn. Það var nóg til þess að þeir börðu gluggana á húsi foreldra minna að utan dag eftir dag eftir dag, það var nóg til þess að hann bankaði upp á og kynnti sig fyrir mömmu minni sem kærastinn minn. Því það yrði svo fyndið ef ég kæmi á fyrirfram ákveðinn stað og þeir gætu hlegið á minn kostnað.

Þetta leiddi til þess að ég varð sífellt sannfærðari um það að ég skipti engu máli. Að það væri enginn sem myndi nokkru sinni líta við mér á rómantískan hátt. Að fólk leitaði aðeins í félagsskap minn til þess að skemmta sjálfu sér. Að ég væri í rauninni óþarfi. Áður en langt var liðið leitaði ég í sjálfsskaða til þess að létta á andlega álaginu, til þess að finna til á annan hátt. Til þess að hleypa sársaukanum út.

Sjálfsskaði verður mjög hratt og örugglega að fíkn. Maður byrjar í þeim tilgangi að létta á andlegum sársauka en á endanum verður þetta vítahringur þar sem hver bruni eða skurður leiðir til enn frekari andlegrar vanlíðunar sem leiðir svo aftur í enn frekari sjálfsskaða. Örin sem þetta skilur eftir sig eru sár en þau sem sjást ekki eru enn dýpri.

Á endanum komst ég upp úr þessu en það var ekki þrautalaust. Sambland aðstæðna og ákvarðanna leiddi til þess að ég komst úr holunni sem ég hafði grafið mér. Ég byrjaði í sambandi við strák sem elskaði mig þrátt fyrir alla okkar galla. Ég byrjaði í leikfélagi sem kenndi mér að stíga fram sem ég sjálf, rétta úr bakinu og trúa á sjálfa mig. Ég beit á jaxlinn og ákvað að áfram skyldi ég halda, fram á við, og horfa aldrei til baka.

Það dugði til í nokkur ár, eða þar til núna. Nú fyrst er ég að byrja að átta mig á því að kannski þurfi ég að vinna betur úr því sem hefur hent mig á þessari annars stuttu ævi minni hér á plánetunni jörð. Þess vegna hef ég lagt af stað í sjálfsvinnu sem er langt því frá lokið, en maður kemst aldrei á leiðarenda nema maður stígi fyrstu skrefin. Ég er byrjuð að leita mér aðstoðar fagmanna og ég er byrjuð að vinna úr þeim hólum og hæðum sem lífið hefur boðið mér upp á. Ég stefni ótrauð á hamingjuna. Hún er þarna, handan við hæðina. En stundum þarf maður að rétta út hendina og leita eftir þeirri aðstoð sem er í boði til að komast yfir erfiðasta hjallann.

Ekki hika ef þig vantar aðstoð. Leitaðu hennar, því hún er til staðar.

Þú ert aldrei ein/n.

2 Replies to “Hamingjan handan við hæðina”

 1. Það er merkilegt hvað einelti hefur djúpstæð áhrif á undirmeðvitundina.

  Ég get ekki sagt að ég sé þunglynd manneskja, eða, ég held það. Erfitt að greina það með sama heila og er undir smásjánni.

  Ég hef haldið í einhvern tíma að ég sé að verða uppfylltari og ánægðari manneskja, en síðan í ákveðnum aðstæðum uppgötva ég betur og betur hvað ég er bækluð manneskja þegar kemur að því að mynda mannleg tengsl, algjör vanhæfni þegar kemur að trausti gagnvart öðrum, og svo framvegis.

  Einelti er, svo sannarlega ógeð.

  Líkar við

  1. Algjörlega sama hér. Ég „komst yfir þetta“ fyrir hátt í 10 árum síðan en í dag er ég að byrja að uppgötva að það að troða öllu ofan í poka og burðast svo bara með pokann án þess að viðurkenna að hann sé til staðar er bara ekki nógu góð aðferð. Ekki það, það er fleira í pokanum mínum en bara þetta. En ég held að það geri manni afar gott að ræða svona við fagmanneskju svo maður geti unnið almennilega úr þessu. Gangi þér vel, ég vona að þú fáir aðstoð við að vinna úr þinni sögu 🙂

   Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s