Fordómar

Ég hef búið hér á landi síðan ég var fjögurra ára gömul og ég verð 23 ára núna í apríl. Þegar ég var yngri fann ég voða lítið fyrir fordómum gagnvart útlitinu mínu. Mér fannst ég ekkert öðruvísi en hinir krakkarnir.
Þegar ég var unglingur og byrjuð að leita að vinnu í fyrsta sinn, fannst mér ég alltaf þurfa að hafa ’’ Gísladóttir ‘’  í stað ‘’ Capangpangan ‘’ í ferilskránni minni því þá fannst mér ég eiga meiri líkur á að fá vinnu og mér finnst ég ennþá þurfa gera það í dag. 
Ég man alltaf eftir því þegar ég vann í Bónus og eldri kona spurði mig hvort við værum með Uhu lím og ég svaraði ‘’ Ha?’’ vegna þess að ég heyrði ekki alveg hvað hún sagði en þá svaraði hún ‘’ oh sorry do you sell…’’  Ég man ekki hvort ég svarði henni á ensku eða íslensku en eftir þetta hef ég vanið mig á að svara alltaf ‘’hvað sagðirðu ? ‘’ í staðinn svo fólk haldi ekki að ég skilji ekki íslensku. En þetta var þá í fyrsta skiptið sem ég varð meðvituð um það að ég væri útlendingur, en ég var þá 15 ára. 
Sem þjónn á veitingastað halda kúnnar oft að ég tali ekki íslensku og byrja þá að tala við mig á ensku. Ég nenni ekki alltaf að svara þeim á íslensku því þá verða þau vandræðaleg, en á hinn bóginn verð ég vandræðaleg ef ég þarf kannski að tala íslensku á næsta borði. Mér hefur alltaf fundist þetta bara vandræðalegt og fyndið þangað til ég talaði við vinkonu mína um þetta sem er einnig asísk. Hún hefur oft lent í þessu líka og finnst þetta lýsa fordómum, að halda að við tölum ekki íslensku bara því við erum ekki íslenskar í útliti. En Ísland er túristaland og margir staðir taka inn erlent starfsfólk og við eigum því alveg eins von á því að afgreiðslufólk sé enskumælandi. Ég skil því alveg hvers vegna fólk heldur að ég tali ekki íslensku. Við vinkonur mínar erum sammála um að það er betra að byrja á að tala íslensku og ef manneskjan skilur ekki það skiptir maður bara yfir í ensku.
Stundum verður fólk forvitið og vill vita hvaðan ég er og svona því ég tala svo góða íslensku. Stundum hef ég verið spurð út í hvort ég sé ættleidd. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég að að vera þegar fólk spyr mig að þessu. Við vinkonurnar veltum stundum fyrir okkur hvort við getum kallað okkur Íslendinga? Erum við filipinskir Íslendingar? Mér finnst allt í lagi að segja fólk frá því hvernig ég kom hingað en fyrir vinkonur mínar sem fæddust hér getur verið mjög þreytandi að fá alltaf sömu spurningarnar. Að vera fædd og uppalin á Íslandi en fá alltaf spurninguna hvort maður sé ættleiddur eða kunni ekki íslensku vegna þess að maður hefur útlenskt útlit. Þetta pirrar mig ekki beint en getur verið þreytandi
En ég meina fólk er bara forvitið, ég elska þegar fólk talar um hvað við filippseyingarnir erum rosalega vingjarnleg þjóð. Þegar þú heimsækir Filippseyjar þá líður þér alltaf eins og þú sért velkomin/n, allir eru svo rosalega vingjarnlegir Fólkið þar elskar útlendinga. Að líða eins og maður sé ekki velkomin í landinu sem maður ólst upp í er frekar fúlt. Ég er ekki að segja að allir séu svona hérna en það er bara mun algengara hér en á Filippseyjum. 
En það kemur líka fyrir að íslendinga sem hafa útlenskt útlit fái sömu spurningarnar á sig hérna á Íslandi. En eitt sem mér finnst skrýtið er að þegar maður byrjar á að tala íslensku en samt er manni svarað á ensku og þrátt fyrir að manneskjan sé íslensk. Ég hef þó nokkuð oft lent í því að taka pöntun og við höfum kannski verið að tala saman á íslensku en nokkrum mínútum seinna er töluð enska við mann? Nokkrar af mínum vinkonum hafa lent í því sama, þið vitið ekki hversu hissa og rugluð ég verð þegar ég lendi í þessu.
En mér finnst þetta allt bara vandræðalegt og fyndið á sama tíma.
En það leiðinlegasta sem ég veit um er þegar fólk fer að særa og niðurlægja vegna útlits. Ég finn mest fyrir fordómum þegar við vinahópurinn erum saman, það er alls ekki oft sem betur fer en mér finnst það gerast mest þegar við erum niðri í bæ að skemmta okkur til dæmis. Fólk sér hóp af asíubúum og fer að stara, hef alveg lent í því að einhver kallar á okkur “ bing dong dingdong “. Ég vildi óska þess að ég hefði kjarkinn til þess að segja “ Nei fyrirgefðu við tölum íslensku, við skiljum ekki hvað þú ert að segja? “ En þarna var maður bara svo hissa yfir þessu og vissi ekkert hvernig maður átti að bregðast við þessu? Mér fannst bara fyndið að sjá fullorðinn karlmann að láta eins og 5 ára. 
 Ég hef kannski ekki lent í neinu svakalegu og ég er bara mjög þakklát fyrir því en í næstu grein hef safnað saman nokkrar sögur sem vinkonurnar mínar hafa upplifað í gegnum tíðina.

 


***
Eitt sinn var vinkona mín að afgreiða mann. Hún heyrði ekki hvað hann sagði því það var svo mikið að gera og mikil læti, svo hún sagði ‘’ ha?’’, Þá spyr maðurinn hvort hún kunni ekki íslensku og biður um einhvern sem kann íslensku. Vinkona mín segir að hún kunni fullkomlega góða íslensku  og hafði bara ekki heyrt í honum útaf látunum.
***
Þegar hún vinkona mín var nýflutt til landsins vann hún sem þerna á hóteli. Gömul kona sér hana og segir síðan við hana ‘’ þið útlendingarnir eruð að taka alla vinnuna frá okkur ‘’ á ensku, en vinkona mín svarar  henni á ensku‘’ nú viltu vinnuna mína ? gjörðu svo vel‘’ 
***
Vinkona mín segir frá:
Þegar ég var í svona 3 bekk lagði bekkjarsystir mín mig í einelti,
það byrjaði smátt og smátt en var aldrei neitt alvarlegt, en það var þetta eitt skipti sem ég man ennþá eftir í dag.

Ég var í frímínútum með nokkrum krökkum að leika svo kom þessi stelpa að mér og spurði hvort ég vildi frekar koma og leika við hana og ég sagði  bara já og bauð henni að vera með okkur. Hún ákvað að labba með mér aðeins frá hópnum og spurði allskonar spurninga sumt skildi ég og sumt ekki.
Spurningar hljómuðu svona
Er mamma þin hóra?
Hvernig kom hún til Íslands ?
Svo endaði hún á því að segja “ mamma mín sagði að allar taílenskar konur eru hórur”

Ég var bara krakki og skildi ekki hvað orðið hóra þýddi þannig ég sagði bara ekki neitt við hana. Mér fannst það mjög skrítið því hún var að hlæja að þessu og glotta skringilega til mín en ég ákvað bíða með það þangað til ég fór heim og spyrja mömmu og pabba hvað þetta allt þýddi.

Ég man ennþá hvað pabbi var reiður þegar hann heyrði þetta, hann hringdi beint í mömmu stelpurnar og sagði henni frá þessu.  
Mamma reyndi að útskýra fyrir mér hvað hún meinti með þessu og hvað þetta þýddi, ég man bara hvað það var erfitt að skilja en ég vissi að það þýddi eitthvað vont, eitthvað sem er ekki jákvætt, og eitthvað sem er niðrandi.
***
Árið 2013 eða 2014
Vinkonur mínar og nokkrir strákar sem ég þekki voru í Smáralind. Þau voru hjá anddyrinu að spjalla saman á sínu tungumáli ( filipinsku ). Þá kemur maður og spyr þau hvort þau tali ekki íslensku, þau svara játandi og hann fer. Hann kemur aftur stuttu seinna og fer að kalla þau Kínverja og rasista og segir að þau hafi komið með svínaflensuna. Ekki nóg með það heldur reyndi maðurinn að fá strákana í slag. ‘’ Þetta er það besta sem ég hef lent í, 8 Kínverjar, komiði! ‘’
Tek það fram að þá voru flestir þarna undir 18 ára.
DV skrifaði grein um þetta hér: link & link
***
Vinkona mín ( sem er hálf íslensk og hálf filipinsk )  og kærastinn hennar eru að rölta niðri bæ þegar einhver maður segir við þau upp úr þurru að þau séu ljótt par. Hann spyr hana hvort hún sé ekki tailendingur, og að kærastinn hennar ætti að ‘’ stick with his own race ‘’ því hann er íslenskur. En maðurinn segir að lokum að hann sé stoltur rasisti.
Getið lesið meira um þetta hér:
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/03/11/ertu_ekki_tailensk/
***
Frá stelpu sem talar um pabba sinn sem er breskur :
Hann hefur búið hérna í meira og minna í yfir 23 ár, fordómarnir hafa verið í gangi allan þann tíma þannig að það er erfitt að muna einhver einstök atriði. Það hefur bara margoft verið komið illa fram og hann ‘’trítaður’’ öðruvísi en til dæmis Íslendingar. Versta dæmið sem ég man þá helst eftir er eflaust árið 2015 þegar hann var að fá sér í glas heima hjá sér og var með tónlist í gangi. Það var hringt á lögregluna vegna þess og þegar hún kom þangað og hann neitaði að hleypa þeim inn eins og við höfum öll rétt á að gera, þá var hurðinni bara nánast sparkað upp og hann laminn svo illa að hann endaði uppá bráðamóttöku, með brotin rifbein, innvortis blæðingar, höfuðáverka og fleira. Hann var á spítala í einhverjar vikur og gerðist þetta meðal annars stuttu eftir að það var ráðist á hann á bar í nágrenninu þar sem hann var einnig lagður inná spítala í margar vikur með mjög alvarlega áverka þannig að hann var vart búin að jafna sig þegar þetta gerist. Pabbi minn er langveikur með ýmsa sjúkdóma og því orðin mjög veikburða fyrir. Mestu fordómarnir hafa í rauninni verið frá lögreglu þessa lands.
*****
Á þetta allt saman að vera bara í lagi ? Rasismi er bara fáfræði og heimska að mínu mati. Þú ferð ekki að dæma bara heila þjóð útaf því þú lentir kannski í nokkrum leiðinlegum útlendingum sem áttu kannski slæman dag. Íslendingar eru mjög blönduð þjóð og því miður gleymist það. Allir eru blandaðir, þú ert mjög líkleg/ur til þess að vera með danskt, norskt, írskt eða jafnvel tyrkneskt blóð í þér ( ef þið munið eftir sögunni af Tyrkjaráninu ). Eins með okkur Filippseyingana þá erum við líkleg til þess að vera með bandarískt, kínverskt og spænskt blóð í okkur. Og ef við myndum taka Bandaríkjamann til dæmis, þeir eru búnir að blandast rosalega gegnum aldirnar að ég skil varla að það skuli vera rasismi í gangi. Fáfræði, ekkert annað. 
En ég mæli með að þið kíkið á þetta videó hér
Ég er samt voðalega ánægð að meirihluti fólks hér á Íslandi sé svona rosalega yndislegt, í samanburði við önnur lönd þá er ég voðalega þakklát fyrir að hafa alist upp hérna og kunna tungumál sem aðeins þrjúhundruðþúsund manns kunna. 
Elsku vinir, elskum og virðum hvort annað. 
Maria Monica 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s