Vangaveltur leiðbeinanda á fyrsta ári í starfi

Það er ýmislegt sem ég hef lært í starfi mínu sem umsjónarkennari á yngsta stigi síðan ég hóf störf núna í haust. Þetta hefur verið langt frá því auðvelt lærdómsferli, enda hef ég hvorki réttindi né reynslu á bak við mig. Aftur á móti hefur samstarfsfólk mitt verið afar hjálpfúst og reiðubúið til þess að ráðleggja mér í hvívetna og ég efast um að ég hefði komist yfir erfiðasta hjallann án þess.

Starf grunnskólakennara er gríðarlega gefandi en krefjandi starf. Við erum tvær í teymiskennslu með 35 barna bekk þar sem ansi margir eru tvítyngdir og fjöldamörg börn glíma við tilveruna með ýmiskonar greiningarstimpla. Börnin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og þau eru jafn yndisleg og þau geta verið erfið. Enginn dagur er eins og dagsform eins getur breytt dagsformi allra.

Það skemmtilegasta við starfið er án efa skilningsglampinn sem kviknar í augum barnanna þegar þau læra eitthvað nýtt eða fatta loksins eitthvað sem hefur reynst þeim snúið. Það er afar gefandi að fylgjast með börnunum vaxa og dafna, bæði sem námsmenn en ekki síður sem manneskjur. Til dæmis þegar feimni nemandinn sem hefur sig aldrei í frammi fer loksins frammi fyrir bekkinn og heldur heila ræðu brosandi. Eða þegar mesti töffarinn skellir sjaldgæfu orði dagsins inn í setningu án þess að hugsa einu sinni út í það. Eða þegar maður fær skyndilegt hópknús af engu sérstöku tilefni. Það er þetta sem gefur starfinu lit.

En það er ýmislegt sem ég hef rekist á síðan ég hóf störf sem hreinlega hrópar á athygli stjórnvalda. Brottfall menntaðra kennara úr starfsstéttinni er þegar hafið og yfirvofandi sár og raunverulegur kennaraskortur. Ef ekki verður gripið í taumana í tæka tíð verða leiðbeinendur eins og ég – hver sem er, gripinn af götunni, með háskólamenntun sem hefur lágmarkstengsl við starfið – í meirihluta þeirra sem sjá um uppeldi íslenskra barna. Ferlið er þegar langt komið innan leikskólakennarastéttarinnar þar sem jafnvel ómenntaðir leiðbeinendur eru í talsverðum meirihluta.

Ég ætla ekki að þykjast hér vera sérfróð um það hvers vegna kennarar hverfa í síauknum mæli til annarra starfa. En þó get ég bent á nokkur atriði. Nemendur eru margir og þarfir þeirra mismiklar. Skóli án aðgreiningar krefst þess að þörfum allra sé sinnt og allir fái jöfn tækifæri til þess að menntast og þroskast sem sjálfstæðar persónur, sem er frábær hugmynd í grunninn. En til þess að hún gangi upp í reynd þarf sárlega fleira fólk á gólfið.

Setjum upp reikningsdæmi. Meðalskóladagur á yngsta stigi eru sex kennslustundir sem hver um sig er 40 mínútur, samtals 240 kennslumínútur á dag. Með 35 börn í bekknum höfum ég og teymiskennarinn u.þ.b. 6,8 mínútur á dag til að sinna hverju barni ef allir ættu að fá jafna athygli yfir kennsludaginn. En okei, við erum tvær. Segjum að við skiptum börnunum jafnt á milli okkar (sem við gerum nú reyndar oft). Þá aukast mínúturnar vissulega og fara upp í heilar 14-15 mínútur á dag. Þetta er vissulega mjög einfaldað reikningsdæmi, en þó umhugsunarvert.

Þá tek ég ekki einu sinni með í reikninginn allar þær óundirbúnu kennslustundir sem hlaupandi forfallakennari tekur á sprettinum því enginn annar var laus. Síðan ég hóf störf hef ég hlaupið inn í kennslu í fimm mismunandi bekkjum, heimilisfræði, myndmennt, tónmennt, smíðum og textílmennt. Eins og áður kom fram eru allir boðnir og búnir að hjálpast að og hlaupa undir bagga ef þörf er á. Dómínókubbarnir standa og falla með hvor öðrum.

Ég ætla svosem ekki að hætta mér út í launaumræðuna að öðru leyti en því að ég er ekki óánægð með launin mín sem slík. En munurinn á mínum launum og launum kennara með réttindi og margra áratuga starfsreynslu er svo lítill að ég velti hreinlega fyrir mér hvort einhver hugsi lengur með sér að 5 ára háskólanám með tilheyrandi námslánum sé þeirra virði. Og þó. Flestir starfa af einhverri hugsjón. Þörf fyrir að miðla þekkingu og hjálpa komandi kynslóð á legg. Löngun til þess að hjálpa hverjum og einum að blómstra á eigin forsendum, því allir geta staðið sig vel í skóla ef rétt er staðið að menntun þeirra. Þetta er falleg hugsjón og mikils verð. Hvers vegna er hún þá ekki metin í samræmi við það? Hvað þarf til þess að stjórnvöld vakni og átti sig á vandanum sem er að verða? Stjórnvöld verða að fara að girða sig í brók og grípa í taumana áður en það verður of seint. Því á endanum verður álagið hugsjóninni yfirsterkari.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s